Vika 46: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 13.-19. nóvember 2023.
Það er alltaf nóg gera og þessi vika var engin undantekning. Ofanflóðasjóður og Verkís funduðu með bæjarfulltrúum vegna ofanflóðavarna í Hnífsdal. Það eru komin drög að vörnum hvernig megi verja dalinn, en talið er öruggast að setja ofanflóðagrindur í Bakkahyrnu (eins og eru í Kubba) og varnargarð. Einnig var haldinn íbúafundur í Hnífsdal þar sem farið var yfir þessa vinnu. Það eru þó nokkuð mörg skref áður en hafist verður handa við varnirnar, það þarf að gera frummatsskýrslu, hanna, breyta skipulagi og treysta á að Alþingi tryggi nægt fé í ofanflóðavarnir á fjárlögum. Tímaramminn er frekar í árum talið en mánuðum, miðað við þær upplýsingar sem komu fram á fundinum.
Íbúafundur í gamla barnaskólanum í Hnífsdal.
Bæjarráð tók fyrir tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að opið væri fyrir samráð um skýrslu um mat á þörfum fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi. Bæjarráð ályktaði á þá leið að lokið verði að verja íbúabyggð áður en hafist verði handa við að verja atvinnuhúsnæði. Hjá okkur þarf að klára Flateyri og Hnífsdal. Vinna við varnirnar á Flateyri á að hefjast næsta sumar.
Byggðastofnun stóð fyrir áhugaverðu málþingi í vikunni um atvinnuuppbygginu og íbúaþróun á Vestfjörðum. Þar voru margir áhugaverðir fyrirlesarar. Sirrý framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu fór yfir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að uppbyggingu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var með tvö erindi, annars vegar um stöðu íbúauppbyggingar og stafræn byggingarleyfi. Það er alveg ljóst að við verðum að bretta upp ermar og hraða íbúauppbyggingu. Ég skoðaði húsnæðisáætlanir vestfiskra sveitarfélaga og þær gera ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmlega 2000 manns næstu fimm árin. Ef það gengur eftir þá þurfum við heldur betur að spýta í lófanna. Friðrik Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins var líka með áhugavert erindi um allar þær hindranir sem eru í vegi íbúðauppbyggingar. Kostnaðarhækkanir, fjármögnun er mjög dýr vegna hárra vaxta, skipulagsmálin eru mjög seinleg og svo framvegis. Þarna er mikið verk að vinna.
Við Bryndís bæjarritari og Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs funduðum með Guðrúnu Steinþórs formanni hverfisráðsins í Dýrafirði. Þar ræddum við auðvitað mál málanna á Þingeyri, lekann í sundlauginni. Það er ljóst að skipta þarf um dúk og stúta. Sundlaugin gegnir stóru hlutverki í mannlífinu og viljum við koma henni í lag sem fyrst. Þegar er búið að senda út verðfyrirspurnir fyrir nýjan dúk en gera má ráð fyrir að laugin verði lokuð í einhverjar vikur, er mér sagt. Því miður. Búið er að kasta út auglýsingu vegna hreinsunar á olíuportinu á Þingeyri. Það er von okkar að þeir aðilar sem eiga þar lausamuni fjarlægi þá. Hverfisráðið hefur lagt mikla áherslu á að portið verði hreinsað.
Hafnarmálasvið Vegagerðarinnar var á yfirreið um Vestfirði og fundaði með okkur Hilmari hafnarstjóra. Þar ræddum við auðvitað Sundabakkann og dýpkunina. Vonandi fáum við dýpkunarskipið fljótlega eftir áramót svo hægt sé að klára það sem eftir er. Við ræddum líka fyrirhugaðar framkvæmdir á Þingeyrarhöfn, en komin var tillaga frá Vegagerðinni um að seinka þeirri framkvæmd þar sem Sundabakkinn fór fram yfir áætlun, en hafnarstjórn mótmælti því. Við leggjum mikla áherslu á að farið verði í framkvæmdir á Þingeyrarhöfn. Hafnarbakkinn á Flateyri kom líka til tals, en þar verður að grípa til aðgerða þar sem hann er enn að síga.
Framkvæmdaráð um Velferðarþjónustu Vestfjarða hélt sinn fyrsta fund og ræddi fjárhagsáætlun ársins 2024. Í ráðinu eiga sæti auk mín, Edda María fjármálastjóri bæjarins, Ingibjörg Birna sveitarstjóri Reykhólahrepps, Þórdís Sif bæjarstjóri Vesturbyggðar og Jón Páll bæjarstjóri Bolungarvíkur.
Einn skemmtilegasti viðburður vikunnar var á Hlíf þegar félagsmiðstöð eldri borgara fékk nafnið Vör. Það var alveg stappfullt af fólki, gefnar voru gjafir, húsbandið Maraþonmennirnir tóku lagið og flottar veitingar. Getur ekki klikkað. Nafnið Vör passar einstaklega vel við aðstöðu félags eldri borgara sem heitir Naust, og er í rýminu við hliðina á Vör. Ég fékk þann heiður að vera í dómnefnd ásamt mætu fólki, en með mér voru þau Jóna Símonía safnstjóri Byggðasafnisins, Annska frá Vestfjarðastofu og Bergþór frá Tónlistarskólanum. Alls bárust 49 tillögur að nafni og þó nokkrir sem stungu upp á Vör, enda flott nafn.
Bæjarstjórn fundaði líka í vikunni en þar voru menningarmálin fyrirferðarmikil í dagskránni en það lágu þrjár tillögur frá menningarmálanefnd fyrir fundinum. Samþykkt var að framlengja samning við Act alone leiklistarhátíðina sem hefur verið haldin á Suðureyri til fjölda ára við frábæran orðstír. Einnig var samþykkt að framlengja samkomulag um afnot af gömlu hreppskrifstofunni á Þingeyri undir leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins út árið 2025. Act alone á 20 ára afmæli næsta sumar. Bæjarstjórn samþykkti líka tillögu um að nýta fjármagn sem áætlað var á bæjarlistamenn (sem afþakkaði tilnefninguna) til að kaupa jólaskreytingar. Sitt sýnist mörgum um þá ráðstöfun.
Sólin hefur hvatt Ísafjörð í bili.