Kaufering
Kaufering er vinabær Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi.
Kaufering er 10.000 manna sveitarfélag í suðvestur-hluta Bæjaralands í Þýskalandi, við rætur Alpanna um 60 kílómetrum fyrir vestan Munchen, 30 kílómetrum frá Augsburg og nálægt hinum fögru vötnum Ammersee og Starnberger See. Áin Lech rennur í gegnum bæinn frá suðri til norðurs og skilur að eldri og nýrri hluta hans.
Í bænum eru tvær kirkjur, önnur fyrir mótmælendur og hin fyrir kaþólikka, þrír skólar, mikil og góð aðstaða til íþróttaiðkunar og öflugt menningarlíf.
Kaufering hóf að myndast á 6. öld með flutningum germanskra landnema suður á bóginn. Bærinn er í miðju mikils landbúnaðarhéraðs og er talsverð þjónustumiðstöð. Stærsti vinnuveitandi staðarins er þó Hilti AG þar sem um 600 manns starfa, en allir húsasmiðir þekkja vandaðar borvélar og önnur verkfæri frá þessum virta framleiðanda. Meðal annarra þekktra iðnfyrirtækja í bænum má nefna Erdwich, sem smíðar málmtætara af ýmsum stærðum og gerðum, og bremsuframleiðandann Hunger.
Menningar- og félagslíf er öflugt í Kaufering og þar má meðal annars finna róðrarklúbb, fornbílaklúbb, félag frímerkjasafnara, félag býflugnaræktenda og tvo kirkjukóra svo fátt eitt sé nefnt.
Opinber vefur sveitarfélagsins