Dýrahald í Ísafjarðarbæ

iceland-dog-1957821_1280.jpg

Hunda- katta- og hænsnahald er leyft í Ísafjarðarbæ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem kveðið er á um í samþykkt um hunda- og kattahald. Sækja þarf sérstaklega um leyfi fyrir hunda- og kattahaldi. Einnig þarf að sækja um leyfi fyrir hænsnahaldi samkvæmt samþykkt um búfjárhald. Eigendur og umráðamenn skulu gæta þess vel að dýr þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró fólks.

Hér að neðan eru helstu reglur og skilyrði útlistuð en tæmandi lista má finna í samþykktum.

Hundahald í Ísafjarðarbæ

Eigendum skráðra hunda býðst árleg hreinsun sem er innifalin í leyfisgjaldi. Hreinsunin fer fram seint á haustin og er auglýst hér á vef Ísafjarðarbæjar og á Facebook-síðu bæjarins.

Umsókn um leyfi til hundahalds

  • Ekki er heimilt að hafa fleiri en þrjá hunda eldri en 4 mánaða á sama heimili. Umhverfis- og eignasviði er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef um er að ræða t.d. björgunarhunda eða hjálparhunda
  • Eigendum og umráðamönnum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hunda sína.
  • Óheimilt er að tjóðra hund án eftirlits ábyrgs aðila eða skilja eftir eftirlitslausa utan húss eða á svölum eða afgirtum veröndum. Þegar hundur er tjóðraður á lóð, skal taumurinn ekki vera lengri en svo að komast megi óhindrað að aðaldyrum viðkomandi húss. Taumur má ekki vera svo langur að hundur komist út fyrir lóðarmörk.
  • Hafi eigandi eða umráðamaður ástæðu til að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns.
  • Óheimilt er að láta hunda vera lausa, nema nytjahunda þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundar skulu annars ávallt vera í taumi utanhúss og í umsjá einstaklings sem hefur fullt vald yfir þeim. Heimilt er þó að hafa hunda lausa undir eftirliti ábyrgs aðila innan hundheldrar girðingar.
  • Ekki þarf að sækja um leyfi fyrir hundahaldi á lögbýlum, en skylt er að skrá þá á bæjarskrifstofum Ísafjarðarbæjar.

Kattahald í Ísafjarðarbæ

Umsókn um leyfi til kattahalds

  • Ekki er heimilt að hafa fleiri en tvo ketti, eldri en 4 mánaða, á sama heimili.
  • Gelda skal alla fressketti þegar þeir hafa náð 6 mánaða aldri, nema þeir séu notaðir til ræktunar.
  • Eigendum katta er skylt að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu á flækingi utan dyra frá kl. 24.00 að nóttu til kl. 07.00 að morgni.
  • Forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma frá 1. maí til 31. ágúst, með því að hengja bjöllu á kött sinn, eða eftir atvikum að takmarka útiveru hans.

Hænsnahald í Ísafjarðarbæ

Umsókn um leyfi til hænsnahalds

  • Bæjarstjórn getur veitt leyfi til að halda allt að 10 hænur í öruggu aðhaldi í þéttbýli, en hanar eru þar með öllu bannaðir.
  • Sá sem vill stunda hænsnahald í þéttbýli skal senda skriflega umsókn til sveitarfélagsins á þar til gerðu eyðublaði.
  • Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda hænsna sem halda skal, tegund hænsnfugla, hvaða húsnæði er til umráða og öðru sem máli kann að skipta fyrir öryggi þeirra og vörslu.

Frístundabúskapur

Umsókn um leyfi fyrir frístundabúskap

Um frístundabúskap (búfjárhald utan lögbýla) gilda reglur sem hægt er að lesa um í 7. gr. samþykktar um búfjárhald í Ísafjarðarbæ.

Dýralæknar

Matvælastofnun hefur gert þjónustusamning við Helgu Sigríði Viðarsdóttur dýralækni um að sinna dýralæknaþjónustu á þjónustusvæði 3 sem nær yfir Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp, Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp, frá og með 28. maí 2022.

Á Ísafirði starfrækir Helga Dýralæknastofu Helgu, s. 8965205.

Sigríður Sigurjónsdóttir starfrækir dýralæknaþjónustu SISVET á Ísafirði, s. 456 3350.

Upplýsingar um sjálfstætt starfandi dýralækna fyrir neyðartilvik.