Jafnlaunakerfi Ísafjarðarbæjar stenst kröfur jafnlaunastaðals
Æðstu stjórnendur Ísafjarðarbæjar hafa rýnt árangur jafnlaunakerfis sveitarfélagsins til að tryggja að kerfið sé virkt, fullnægjandi og að það henti áfram starfsemi stofnana, í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Niðurstöður úr rýninni voru kynntar á fundi bæjarráðs þann 8. janúar og benda þær til þess að kerfið standist kröfur jafnlaunastaðalsins.
Í rýninni er meðal annars farið yfir að hvaða marki markmiðum jafnlaunakerfisins hefur verið náð og benda niðurstöður síðustu þriggja launagreininga til þess að launamunur milli kynja sé vel innan markmiða. Einnig er hlutfall kynja í nefndum í samræmi við markmið. Rýnin tekur einnig fyrir niðurstöður innri úttekta og mat á hlítingu við lagalegar og aðrar kröfur sem Ísafjarðarbær undirgengst. Þær benda sömuleiðis til þess að jafnlaunakerfið standist kröfur. Kjarasamningum er fylgt í hvívetna og vel fylgst með breytingum sem á þeim verða.
Jafnlaunastofa gaf á síðasa ári út nýja heimild til að nota jafnlaunamerkið og gildir það til 2026.
Næsta viðhaldsúttekt er fyrirhuguð í maí á þessu ári. Komi fram ábendingar um atriði í jafnlaunakerfinu sem telja má ábótavant verður strax gripið til ráðstafana og leiða leitað til umbóta.