Ísafjarðarbær þátttakandi í verkefni um úrgangsstjórnun
Ísafjarðarbær hefur verið valinn til að taka þátt í verkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga um kostnað og tekjur sveitarfélaga í úrgangsstjórnun, ásamt Garðabæ, Rangárþingi eystra, Skagafirði og Suðurnesjabæ. Markmið verkefnisins er að ná betri yfirsýn yfir kostnað sveitarfélaga í málaflokknum, hvernig hann hefur þróast síðastliðin ár og leggja fram tillögur að hagræðingu í rekstri út frá niðurstöðum greiningar. Verkefnið er í tveimur áföngum og ráðgert er að hefja það í núna strax í janúar.
Samband íslenskra sveitarfélaga leiðir verkefnið með aðstoð tveggja ráðgjafa, annars vegar Pure North og hins vegar HLH ráðgjöf, sem munu vinna greiningarvinnuna og setja fram niðurstöður verkefnisins.
Auglýst var eftir áhugasömum sveitarfélögum til þátttöku í verkefninu seint á síðasta ári og bárust alls 22 umsóknir. Í frétt Sambandsins um málið kemur fram að horft var til eftirfarandi forsenda við val á sveitarfélögum:
- Staða gagnvart innleiðingu nýrra lagakrafna
- Svigrúm til að leggja fram vinnu til verkefnisins
- Aðgengi að upplýsingum
- Rekstrarform á þjónustu
- Dreifing yfir landið, m.t.t. til stærðar, staðsetningar, dreifbýli eða þéttbýli eða hvoru tveggja
Í fréttinni segir einnig:
„Áðurnefnd sveitarfélög eru öll vel á veg komin með að innleiða nýlegar lagakröfur um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Greining á kostnaði og tekjum þeirra ætti því að kasta ljósi á almenna kostnaðarþróun sveitarfélaga miðað við núgildandi kröfur. Að auki er talið að sveitarfélögin búi yfir þeim upplýsingum sem þarf til að ná fram markmiðum verkefnisins og bolmagni til að miðla þeim áfram til sambandsins og ráðgjafa þess. Jafnframt er talið að þessi hópur sveitarfélaga endurspegli vel mismunandi stöðu sveitarfélaga m.t.t. stærðar, staðsetningar, rekstrarforms í málaflokknum og annarra þátta sem horft er til.“