Fjárhagsáætlun 2024: Samantekt bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024 var samþykkt á 524. fundi bæjarstjórnar sem fór fram þann 7. desember 2023.

Eftirfarandi er samantekt bæjarstjóra um áætlunina:

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2024 gerir ráð fyrir 452 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Rekstur A-hluta verður jákvæður um 186 milljón króna á árinu 2024 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 10,3% af heildartekjum eða 1.092 milljónir króna.

Fjárhagsáætlunin ber merki gríðarlegs viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins. Árin 2020-2022 var halli rekstursins upp á 1.100 milljónir en fyrir árin 2023-2024 er gert ráð fyrir 750 milljóna króna afgangi. Okkur hefur tekist, með samstilltu átaki, að snúa rekstri sveitarfélagsins við.

Stöplarit sem sýnir rekstrarniðurstöðu áranna 2020-2024

Á árinu 2024 eru á dagskrá fjölmörg umbótaverkefni í rekstri, þar má nefna helst áframhaldandi sölu úr eignasafni Fastís og samtal við fjármálaráðuneytið um hjúkrunarheimilið Eyri þar sem við höfum þurft að greiða með starfseminni, sem þarf að leiðrétta.

Húsnæðismálin munu þurfa athygli okkar. Við þurfum að klára miðbæjarskipulagið en þar verða reitir sem hægt verður að byggja á og þétta, og þar með fjölga íbúðum verulega. Húsnæðisáætlunin gerir ráð fyrir að byggja þurfi 90 íbúðir næstu fimm árin og 200 næstu tíu.

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2024

  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 452 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um 186 milljón króna
  • Skuldaviðmið er áætlað um 71% í árslok 2024
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta eru tæpar 1.091.918 milljónir króna eða 10,3% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta er óbreytt eða 14,74%
  • Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðahúsnæði er lækkuð til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats, verður 0,54% af hús- og lóðamati.
  • Áætlaðar fjárfestingar nema 1.324 milljónum króna og nemur hlutur Ísafjarðarbæjar 895 milljónum króna

Helstu fjárfestingar 2024

Fjárheimild Ísafjarðarbæjar til framkvæmda árið 2024 er um 895 milljónir króna. Í nýrri fjárhagsáætlun er lögð áhersla á forgangsröðun í þágu grunnþjónustu, svo sem skólamannvirkja, umhverfismála, hafnaframkvæmdir, íþróttaaðstöðu og fráveitumála. Fyrirferðamesta framkvæmdin er, eins og síðustu ár, Sundabakkinn, sem á að klára. Meðal helstu fjárfestinga á árinu 2024 má nefna:

  • Fráveituframkvæmdir á Þingeyri
  • Klára fráveitu á Suðureyri
  • Endurbætur og viðhald á skólahúsnæði og -lóðum
  • Endurnýjun lóðar á leikskólanum Sólborg
  • Nýtt kennslueldhús og matsalur við Grunnskólann á Suðureyri
  • Gerð leikvallar á gamla gæsló á Ísafirði
  • Kakóhús við Siggasvell á Flateyri
  • Hreystitæki, jarðvinna.
  • Gervigras á aðalvöllinn á Torfnesi
  • Útikörfuboltavöllur á Torfnesi
  • Endurbætur á Safnahúsi
  • Endurgerð gangstétta og gönguleiða
  • Malbikun
  • Gatnagerð á Suðurtanga
  • Norðurtangi, lenging, bekkir og lýsing 
  • Ný farþegabryggja
  • Áframhaldandi skipulagsvinna á Sundabakka, merkingar, gönguleiðir, trébryggja

Þá er áfram unnið að undirbúningi ýmissa stórra verkefna á vegum bæjarins, svo sem nýju deiliskipulagi á Suðurtanga sem gerir ráð fyrir mikilli uppbyggingu.

Útsvar og fasteignagjöld

Lagt er til að útsvarsgreiðslur fyrir árið 2024 verði áætlaðar 3.000 m.kr. samanborið við 2.800 m.kr. í áætlun 2023. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa í þessari áætlun en gert er ráð fyrir að stað­greiðslu­­skyldar tekjur hækki um 7,2%. Í áætlun 2024 er staðgreitt útsvar áætlað 2.955 m.kr., eftir á greitt útsvar áætlað 129 m.kr. og lækkanir og niðurfærsla áætluð 84 m.kr. 

Samkvæmt fjárhagsáætlun er lagt til að hlutfall fasteignaskatts fyrir árið 2024 lækki hvað varðar íbúðar­húsnæði og verði 0,54% af hús- og lóðarmati, en verði það sama af öðrum fasteignum, það er 1,65% af hús- og lóðarmati.

Greinargerð fjárhagsáætlunar

Rekstrar og efnahagsreikningur