Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 9
Dagbók bæjarstjóra dagana 26. febrúar-3. mars 2024.
Góð vika að baki og geggjuð helgi. Það sem við erum heppin að eiga þetta frábæra skíðasvæði. Allar brekkur troðnar og flottar gönguskíðabrautir. Sól og skíði — fátt sem toppar það. Risastórt hrós á starfsmenn skíðasvæðisins.
Ég er búin að eiga tvo samráðsfundi í vikunni með öðrum framkvæmdastjórum sveitarfélaga með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um framlag sveitarfélaga til að kjarasamningar náist. Það binda allir vonir við að samningar náist og hægt verði að ná niður verðbólgu og vöxtum.
Í bæjarráði voru góðar umræður um byggingu nýrrar slökkvistöðvar en það er mikill þörf á nýrri og verkefnið er að finna leiðir til þess að láta það verða að veruleika. Einnig var tekin snúningur á verkefnum sem Ísafjarðarbær ætlar að sækja um í Fiskeldissjóð. Eitt af verkefnunum er bygging verknámshúss við MÍ, en hugmyndin er að þau fiskeldissveitarfélög sem ætla að koma að þessari byggingu sæki um sameiginlega. Það er okkar mat að slík umsókn eigi mjög góðan séns og vonandi er stjórn sjóðsins sammála.
Verkefnisstjórn þróunarsjóðsins á Flateyri átti fund í vikunni og hélt áfram að fara yfir umsóknir. Styttist í að það verði gert opinbert hver fá úthlutað styrk.
Það var langur stjórnarfundur hjá Lánasjóði sveitarfélaga, ég var veðurteppt á Ísafirði og gat setið fundinn í gegnum Teams.
Ég átti góðan fundi með Guðrúnu frænku minni sem er formaður Hverfisráðsins á Þingeyri, þar sem við fórum yfir helstu mál er tengjast Dýrafirðinum og þau mál sem voru til umræðu á síðasta fundi stjórnar hverfisráðsins. Ég ásamt fleirum er mest spennt yfir sundlauginni, enda er hún orðin svo fín.
Við Hafdís sviðsstjóri skóla- tómstundasviðs funduðum með Margréti Pálu og Ölmu frá Hjallastefnunni en þar er verið að ræða nýjan samning en eins og margir vita þá rekur Hjallastefnan leikskólann Eyrarskjól á Ísafirði.
Það bárust góðar fréttir úr atvinnulífinu í vikunni. Arctic Fish var að fá samþykkt rekstrarleyfi fyrir 8000 tonna fiskeldi í Djúpinu svo á að fara að byggja nýjan Júlíus Geirmundsson. Það er ekki annað hægt að segja en að það sé bjart yfir okkur.
Á föstudaginn var fyrir-afmæli hjá Aldrei fór ég suður sem er 20 ára í ár. Kynnt var geggjuð dagskrá sem fer fram um páskana auk þess sem Kerecis var að bætast í hóp styrktaraðila. Eins og í öllum góðum afmælum var boðið upp á rækjubrauðtertu, og sjálfur Íslandsmeistarinn í brauðtertugerð Gunna Sigga gerði afmælistertuna í 20 ára afmæli Aldrei. Minna má það ekki vera.