Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 4
Dagbók bæjarstjóra dagana 22.-28. janúar 2024.
Sólin er komin og Ísafjörður átti 158 ára afmæli í vikunni. Sólin lét meira segja sjá sig á sjálfan sólardaginn, þó að dagurinn hafi byrjað dumbungslega. Pönnukökuilminn lagði um allan bæ, þó aðallega í Grunnskólanum á Ísafirði þar sem foreldrar í mörgum árgöngum skiptast á að baka og fara með í skólann. Mér barst bréf frá nemendum í 8. bekk þar sem þau óttast að það sé mygla í skólastofunni sinni. Ég svaraði um hæl og gat deilt með þeim að búið væri að kaupa nýja glugga í stofuna en það þarf að kanna hvort það sé eitthvað meira en ónýtir gluggar sem liggur þar að baki.
Vikan byrjaði sem fyrr í bæjarráði þar sem voru mörg áhugaverð mál á dagskrá. Komin eru fram drög að stefnu í móttöku skemmtiferðaskipa. Næsta skref er að funda með hagsmunaaðilum og svo fer stefnan í almenna kynningu fyrir íbúa sem geta þá komið með athugasemdir. Bæjarráð ræddi nýútkomna skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis: Breytt fyrirkomulag fasteigna vegna hjúkrunarheimila. Þarna er verið að kynna leiðir sem eiga eftir að skipa fjárhag Ísafjarðarbæjar verulegu máli. Ísafjarðarbær byggði hjúkrunarheimilið Eyri sem það leigir ríkinu til að reka hjúkrunarheimilið Eyri. Leigutekjur frá ríkinu hafa ekki dugað fyrir afborgunum lána og viðhaldi, og hefur bærinn þurft að greiða tugi milljóna árlega með þessari framkvæmd! Ársskýrsla slökkviliðsins fékk líka umfjöllun, og já myglan.
Ég átti fjarfund með barna- og menntamálaráðuneytinu ásamt sveitarstjórum á Vestfjörðum vegna viðbyggingar við Menntaskólann á Ísafirði. Þetta mál hefur verið í undirbúningi lengi en nú er komin skriður á málið. Nú er verið að ræða fjármögnun, en þetta er 40/60 framkvæmd. Vestfirsk sveitarfélög, eða þau sem vilja koma að þessu framfaramáli, þurfa að reiða fram 40%. Súðavíkurhreppur hefur þegar tekið jákvætt í framkvæmdina en þetta fer á dagskrá bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í næstu viku. Þetta skiptir vestfirskt samfélag verulegu máli en nýja viðbyggingin á að hýsa verknámshús. Það er þörf á að mennta fleiri iðnaðarmenn.
Við Bryndís bæjarritari tókum vinnudag á Þingeyri. Náðum að funda með Guðrúnu frænku minni sem er líka formaður hverfisráðsins, Marsibil stjórnarkonu og Gunnari Blábankastjóra, auk þess að hitta bæjarbúa sem kíktu á okkur í kaffi. Álagning fasteignagjalda var send út í síðustu viku og var aldeilis hækkun á Þingeyri, því þrátt fyrir að álagningarprósentan hafi verið lækkuð þá hækkaði fasteignamat á Þingeyri um 41%. Þingeyri var hástökkvari Ísafjarðarbæjar en Flateyri kom svo í kjölfarið með 34% hækkun fasteignamats.
Það var gaman að sjá að olíuportið á Þingeyri er orðið alveg tómt og Dýrfirðingar þurftu ekki að láta segja sér það tvisvar að hreinsa til. Alveg til fyrirmyndar. Nú þarf bara að finna einhverja góða notkun fyrir þetta svæði sem sómi er að.
Við notuðum líka tækifærið að undirrita tvo samninga við Elfar Loga, annars vegar um Act Alone sem á 20 ára afmæli í sumar og Kómedíuleikhúsið sem er með margt í pípunum.
Lokun sundlaugarinnar á Þingeyri er farin að hafa veruleg áhrif á fólk sem vill fara að komast í sund. Það styttist í það, en búið er að lofa okkur nýja dúknum í laugina um miðjan febrúar. Fólk er samt duglegt að koma saman og fara í pottinn og drekka kaffi, enda ein af félagmiðstöðvum bæjarins.
Það var stjórnarfundur í Lánasjóði sveitarfélaga í vikunni en á þeim sat Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar sinn fyrsta fund sem aðalmaður en hún tók sæti Elliða Vignissonar bæjarstjóra Ölfusar sem var að hætta í stjórninni.
Ég átti fund með Verkís vegna Gamla gæsló, þar sem við erum að leita leiða við að taka betur tillit til sjónarmiða íbúa og ég er bjartsýn á að það gangi eftir.
Við Bryndís bæjarritari og Edda fjármálastjóri enduðum svo vikuna á stjórnssýsluúttekt frá KPMG sem eru endurskoðendur bæjarins. Þeim fannst þetta meira gaman en mér.