Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 10
Dagbók bæjarstjóra dagana 4.-10. mars 2024.
Vikurnar fljúga áfram og sú líðandi er engin undantekning. Hápunktur vikunnar var að sjálfsögu að kjarasamningar náðust milli breiðfylkingarinnar og SA með það að markmiði að kveða niður vexti og verðbólgu. Það eru nokkrir þættir í samningunum sem við þurfum að taka til okkar og á eftir að ræða á vettvangi bæjarstjórnar. Það á að horfa heildstætt á umönnun barna frá 0-18 ára og það þýðir að þarf að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Útfæra á leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Áætluð bein kostnaðarþátttaka forráðamanna vegna skólamáltíða grunnskólabarna nemur í dag um fimm milljörðum króna á ári og mun ríkið greiða 75% þess kostnaðar eða allt að 4 milljarða króna.
Önnur minni frétt vikunnar en sem er líka mjög gleðileg en það er búið að opna sundlaugina á Þingeyri eftir gagngerar endurbætur.
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra var með kynningarfund í vikunni um aðgerðaáætlun í ferðamálum til ársins 2030.
Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu í vikunni. Við fengum feitan bakreikning frá Lífeyrissjónum Brú en það er ekkert við því að gera nema taka því en þetta dregur úr góðri rekstarniðurstöðu ársins 2023. Bæjarstjórnarfundurinn var að mestu helgaður skipulagsmálum.
Þetta er búin að vera mikil umsóknarvika hjá Ísafjarðarbæ. Við sendum inn sjö umsóknir í Fiskeldissjóð í vikunni, tvær í framkvæmdasjóð aldraðra og eina mjög stóra Evrópuumsókn ásamt fleirum er tengist fráveitumálum. Starfsmenn umhverfis- og eignasviðs hafa borið þungann af þessari vinnu ásamt velferðarsviði. Nú er bara að vona að við uppskerum vel.
Ég setti á mig hatt ritara Samfylkingarinnar og formanns stýrihóps um atvinnu- og samgöngumál innan flokksins og fór í fundarferð með mínum góða formanni Kristrúnu Frostadóttur og Ólafi Kjaran hennar aðstoðarmanni. Við heimsóttum fyrirtæki á Bíldudal, Tálknafirði, Brjánslæk, Ísafirði og Bolungarvík auk þess að halda fjóra vel sótta og opna fundi á tveimur dögum. Ég get ekki annað sagt en það er mikill hugur í fyrirtækjum á svæðinu. Samgöngurnar og orkumálin brenna á fólki. Mjög gott veganesti og afar gagnlegt.
Glöggir bæjarbúar hafa tekið eftir framkvæmdum í Bónus en þar er verið að stækka verslunina verulega. Ég hitti Auðunn Pálsson (frá Þúfum) sem stýrir verkinu en hann kom einnig að því að opna Bónus á Ísafirði 1999. Friðrik Hagalín hjá Stjörnufrosti var að taka út aðstæður ásamt pabba sínum Smára Haraldssyni sem er líka fyrrum bæjarstjóri. Þetta á eftir verða svakalega flott þegar framkvæmdum lýkur.