Ársskýrslur safna í Safnahúsinu 2023

Út eru komnar ársskýrslur bókasafnsins, héraðsskjalasafnsins, ljósmyndasafnsins og Listasafns Ísafjarðar fyrir árið 2023.

Í skýrslunum er stiklað á stóru um starfsemi ársins hjá söfnunum sem öll eru með aðsetur í Safnahúsinu við Eyrartún á Ísafirði.

Bókasafnið

Á árinu 2023 störfuðu fimm starfsmenn á bókasafni. Fjöldi stöðugilda var samtals 2,55. Forstöðumaður er Edda Björg Kristmundsdóttir.

Lykiltölur úr rekstri bókasafnsins 2023:

  • Útlán: 10.370 (11.118) par af Rafbókasafnið 323 (224)
  • Millisafnalán: fengið 10 /sent 3 (fengið 17 /sent 3)
  • Heimsóknir leikskólabarna, skipulagðar: 0 (7)
  • Heimsóknir grunnskólabarna, skipulagðar: 2 (2)
  • Afgreiðslustundir á viku: 33 (33)
  • Safnkostur skráður i Gegni i árslok 58.113 (58.106)
  • Sumarlestur, þátttakendur: 45 (38)

Aðföng á árinu voru 1.315. Afskráður safnkostur: 1.826.

Rafræn bókasafnsskírteini i símann voru loks i boði fyrir öll almenningsbókasöfn árið 2023 en Landskerfi bókasafna kynnti þessa nýjung i ágúst. Ný ssjálfsafgreiðsluvél var tekin í notkun og vel tekið af notendum úr öllum aldurshópum. Útlán úr vélinni eru um 25% af útlánum.

Útlán hafa dregist saman, en á sama tíma aukast útlán Rafbókasafnsins, en þar er hægt að fá lánaðar hijóð- og rafbækur i miklu úrvali með bókasafnsskírteininu.

Fjölbreyttir viðburðir voru í boði á bókasafninu, til dæmis foreldramorgnar, bókaklúbbur, bókaspjall, námskeið og fræðsla. Barnastarf fól meðal annars í sér páskaföndur, sumarlestur, dagskrá í haustfríi og sögustundir.

Ársskýrsla Bókasafnsins Ísafirði 2023

Héraðsskjalasafnið og ljósmyndasafnið

Á árinu 2023 störfuðu sjö starfsmenn á skjala- og ljósmyndasafni. Fjöldi stöðugilda var samtals 4,4. Héraðsskjalavörður er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.

Skráðar fyrirspurnir til skjalasafnsins voru samtals 131 auk tilfallandi minni fyrirspurna. 

Alls bárust skjalasafninu 36 afhendingar á árinu. Afhendingarnar geta verið allt frá einu blaði upp í marga hillumetra. Ástand afhendinga er misjafnt, bæði hvað varðar frágang og ásigkomulag.
Vegna skorts á geymsluplássi hefur skjalasafnið ekki getað tekið á móti stærri afhendingum og hafa nokkrar slíkar beðið hjá skilaskyldum aðilum. Það vandamál leysist hins vegar með tilkomu nýrrar geymslu í Sindragötu 11 og er undirbúningur fyrir móttöku þessara afhendinga hafinn.

Skjalasafnið býður upp á ráðgjöf og fræðslu fyrir skilaskylda aðila á norðanverðum Vestfjörðum. Sama þjónusta er í boði fyrir aðrar stofnanir, fyrirtæki, félög og einstaklinga.

Skráðar fyrirspurnir til ljósmyndasafnsins voru samtals 133, auk tilfallandi minni fyrirspurna. Nokkuð er um afgreiðslu mynda vegna útgáfu bóka, blaða og kvikmynda.

Alls bárust ljósmyndasafninu 11 afhendingar á árinu. Afhendingarnar geta verið allt frá einni mynd upp í nokkra kassa af myndum/filmum. Safnið tekur við ljósmyndum frá einstaklingum, félögum, fyrirtækjum og stofnunum. Afhendingar eru skráðar og gengið frá þeim í sýrufríar umbúðir með varðveislu til framtíðar í huga.

Söfnin stóð fyrir fjölbreyttu fræðslu- og kynningarstarfi árið 2023 auk þess sem starfsfólk sótti námskeið og fundi. Hæst bar Haustráðstefna Félags héraðsskjalavarða á Íslandi sem fór fram í Safnahúsinu 28.-29. september.

Ársskýrsla Héraðsskjalasafnsins og Ljósmyndasafnsins Ísafirði 2023

Listasafn Ísafjarðar

Á árinu 2023 var einn starfsmaður við Listasafn Ísafjarðar, Rannveig Jónsdóttir, í 35% stöðugildi sérfræðings. Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, forstöðumaður Skjalasafnsins og Ljósmyndasafnsins, er jafnframt forstöðumaður Listasafns Ísafjarðar og sinnir þeim verkefnum listasafnsins sem undir hana falla.

Alls voru 12 sýningar á vegum Listasafns Ísafjarðar árið 2023. Áætlaður fjöldi gesta er um 3092 talsins.

Sýningar í sýningarsal í Safnahúsinu voru:

1. Á víð og dreif, sýning á sex málverkum úr safneign Listasafns Ísafjarðar – 9 vikur (20.01 – 25.03)
2. Sjalaseiður, Bergrós Kjartansdóttir – 6 vikur (06.04 – 06.05)
3. Uppáhelling fyrir sæfarendur, Guðbjörg Lind Jónsdóttir – 10 vikur (26.05 – 13.08)
4. Solander, Daniel Solander – 3 vikur (19.08 – 09.09)
5. Home, Yoav Goldwein – 3 vikur (15.09 – 07.10)
6. Dregin lína, Sigrún Gyða Sveinsdóttir og Elísabet Anna Kristjánsdóttir – 10 vikur (28.10 – 30.12)

Sýningar á göngum Safnashússins:

1. Nina Ivonova, sýning á vatnslitamyndum á pappír
2. Pétur Guðmundsson, innrömmuð verk unnin úr bókakápum
3. Muggur, verk úr safneign eftir Mugg
4. Sjálfsmyndir leikskólabarna, samsýning leikskóla Ísafjarðarbæjar
5. Hedda Hörran, innsetning
6. Samansafn, verk barna og unglinga unnin í listasmiðjum safnsins í tengslum við sýninguna Dregin lína.

Árið 2023 var farið í það verkefni að staðsetja, ástandsskoða og skrá safnkost Listasafns Ísafjarðar. Safnið býr yfir ágætum safnkosti sem telur um 200 verk og prýðir hluti þeirra húsakynni opinberra stofnana víða í bænum en annað er í geymslu. Hafin var undirbúningsvinna að nýrri skráningu á safneigninni og stefnt að því að nýja skráin verði aðgengileg almenningi.
Ástandsskoðun leiddi í ljós að því miður er nokkuð um skemmdir á verkum safnsins. Má þar fyrst og fremst kenna um langvarandi skorti á viðunandi geymsluaðstöðu þar sem verkin hafa oftar en ekki verið geymd í þrengslum og aðgengi að þeim erfitt. Að sama skapi hefur umgengni við verk í láni ekki alltaf verið sem skyldi og vantað upp á að borin væri nægjanleg virðing fyrir þeim menningarverðmætum menn taka ábyrgð á meðan á láni stendur. Viðgerðir eru óumflýjanlegar og ljóst að mikill kostnaður mun fylgja því verkefni. Hvernig staðið verður að fjármögnun er óljóst á þessari stundu en líklegast að leitað verði aðstoðar einstaklinga og fyrirtækja. 

Nokkur áhersla var lögð á fræðslustarf og miðlun á árinu 2023, með það að markmiði að skapa sem besta ímynd safnsins út á við. Þrjú námskeið voru haldin fyrir börn og unglinga á vegum safnsins.

Ársskýrsla Listasafns Ísafjarðar 2023