Bæjarráð: Tekið undir áskorun almannavarnarnefndar vegna farsímasambands
19.12.2023
Fréttir
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir bókun sameinaðrar almannavarnarnefndar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps um að bæta þurfi farsíma- og tetrasamband á vegum Vestfjarða. Málið var tekið fyrir á 1267. fundi bæjarráðs þann 18. desember.
Í bókun bæjarráðs segir að efla þurfi enn frekar farsímakerfi og tetrakerfi á þjóðvegum á Vestfjörðum.
Bókun nefndarinnar:
Bæjarráð tekur undir bókun sameinaðrar almannavarnarnefndar um að efla þurfi enn frekar farsímakerfi og tetrakerfi á þjóðvegum á Vestfjörðum. Þó samanlögð reiknuð útbreiðslusvæði símafyrirtækjanna bendi til að sambandið sé stöðugt sýna vegamælingar á raunútbreiðslu farsímasambands marga skugga á aðalsamgönguæðum, svo sem í Seyðisfirði, Hestfirði, Skötufirði, Ísafirði, Staðardal í Steingrímsfirði, Vattarfirði, Kjálkafirði, Dynjandisheiði og Patreksfirði. Þetta hefur hamlandi áhrif á störf viðbragðsaðila, minnkar öryggi og skapar hættu við slys og óhöpp. Þá eru ótalin óþægindi af því að vera ótengdur í æ nettengdari heimi.