Nýr sumarviðburðasjóður hjá höfnum Ísafjarðarbæjar
Settur verður á stofn sérststakur sumarviðburðasjóður hafna Ísafjarðarbæjar og var umgjörð og stofnun sjóðsins samþykkt á 250. fundi hafnarstjórnar. Markmiðið með sjóðnum er að styrkja og bæta bæjarbrag í tengslum við skemmtiferðaskipakomur, með áherslu á að efla menningu og mannlíf.
Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða, en ekki eru veittir styrkir til rekstrar‐, stofnkostnaðar‐ eða endurbóta eigna eða fyrirtækja.
Úthlutað er til lögráða einstaklinga, listhópa, félagasamtaka, stofnana eða fyrirtækja sem koma að menningarviðburðum í Ísafjarðarbæ.
Helstu skilyrði fyrir styrkveitingu:
- Viðburðir skulu haldnir á tímabilinu maí til september
- Viðburðir skulu vera þátttakendum/áhorfendum að kostnaðarlausu
- Viðburðir sem haldnir eru á milli klukkan 10:00 og 15:00 njóta forgangs
Hægt er að sækja um styrk að hámarki 1.000.000 kr.
Ísafjarðabær mun tilnefna tvo aðila og Vestfjarðastofa tilnefnir einn í úthlutunarnefnd ásamt einum starfsmanni Vestfjarðastofu sem heldur utan um vinnu sjóðsins.
Á fundi hafnarstjórnar var hafnarstjóra falið að útnefna fulltrúa í úthlutunarnefndina.
Opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn á næstu dögum og verður það auglýst sérstaklega. Einnig verður boðað til fundar á Vestfjarðastofu þar sem sjóðurinn verður kynntur betur.