Bæjarráð: Ótækt að sveitarfélög borgi brúsann
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur lýst vonbrigðum með úrskurð í máli Reykjavíkurborgar gegn íslenska ríkinu vegna Jöfnunarsjóðs, þar sem ríkinu var gert að greiða 3,37 milljarða í skaðabætur til Reykjavíkurborgar. Málinu verður áfrýjað en standi niðurstaðan óbreytt mun Jöfnunarsjóður þurfa að lækka framlög til sveitarfélaga næstu árin til að jafna stöðu sjóðsins.
Í bókun bæjarráðs um málið kemur fram að það sé ótækt að sveitarfélög séu látin borga brúsann vegna málsins. „Mikilvægt er að halda áfram vinnu við breytt fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs þar sem markmiðin með þeirri vinnu eru að auka gegnsæi og fyrirsjáanleika í framlögum sjóðsins,“ segir jafnframt í bókuninni.
Í bréfi innviðaráðherra til allra sveitarstjórna landsins vegna málsins kemur fram að hann muni ekki beita sér fyrir að fyrirliggjandi frumvarp til nýrra laga um Jöfnunarsjóð verði afgreitt á yfirstandandi löggjafarþingi, heldur beðið með slíka heildarendurskoðun þar til óvissu hefur verið eytt. Á 1236. fundi sínum, þann 27. mars 2023, fagnaði bæjarráð tillögum að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs í umsögn sinni um endurskoðunina.
Nánar:
Bréf innviðaráðherra til allra sveitarstjórna landsins vegna málsins.