Ársskýrsla Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar 2023
Ársskýrsla Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 er komin út.
Enginn stóreldur eða stórtjón var á svæði slökkviliðsins árið 2023. Er þar þakkað öflugu eldvarnareftirliti og auknum forvörnum á heimilum.
Útköll slökkviliðs á árinu voru 33, með mismiklum forgangi, og voru þau vegna umferðarslysa, leka hættulegra efna, aðstoðar við sjúkrabíl, elds í rusli og gróðri og annarrar aðstoðar við fyrirtæki og stofnanir. Einnig var slökkviliði Vesturbyggðar veitt aðstoð vegna stórelds hjá Artic fish á Tálknafirði. Þá var nokkur vinna hjá slökkviliði við vökvun á sandi á landfyllingu á Suðurtanga á Ísafirði, þegar sandurinn fór af stað í miklum vindi.
467 sjúkraflutningar voru á árinu 2023 sem er töluverð fækkun miðað við 558 flutninga árið 2022, sem var óvenju annasamt í sjúkraflutningum. Sjúkraflutningarnir skiptast svo:
- F-1 útkall í hæsta forgangi: 66
- F-2 útkall á forgangi: 91
- F-3/F-4 almennir sjúkraflutningar: 310
Fjöldi sjúkraflutninga á sjúkrabíl á Þingeyri voru 29.
Í skýrslunni er læknum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þakkað fyrir þeirra framlag til sjúkraflutninga á árinu. Einnig er þeim fjölmörgu sem komu að björgunaraðgerðum á árinu 2023 færðar þakkir.