Aðalskipulag: Hvítisandur í Önundarfirði
Ísafjarðarbær auglýsir breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 og nýtt deiliskipulag vegna Hvítasands, baðstaðar í Önundarfirði.
Unnið er að undirbúningi baðstaðar í Holtsfjöru í landi Þórustaða í Önundarfirði. Í dag er Holtsfjara vinsæl til útivistar en þar eru hvítir sandar í stórbrotnu umhverfi. Áætlað er að nýta núverandi aðkomuveg að Holtsbryggju sem aðkomu að baðstaðnum og nýta gömlu malbikuðu flugbrautina fyrir aðkomu og bílastæði. Núverandi vegaslóði frá flugbrautarenda niður í gamla sandnámu í Holtsfjöru verði nýttur sem aðkoma gesta frá bílastæðinu að böðunum. Sjálf böðin eru áformuð í gamalli sandnámu sem þarna er í fjörunni.
Undirbúningur hefur miðað við að mannvirki vegna baðanna verði að mestu leyti bundin við svæði sem nú þegar hefur verið raskað vegna flugvallarins og námunnar. Þá er áfram miðað við að almenningur hafi aðgang að fjörunni og þar verði opin sturtuaðstaða fyrir öll sem vilja baða sig í sjónum, hér eftir sem áður, án þess að fara í böðin. Fyrir baðstaðinn þarf að vinna deiliskipulag og breyta þarf aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar með því að breyta landnotkun úr landbúnaðarsvæði/óbyggt svæði í svæði fyrir verslun og þjónustu.
Skipulagslýsingin er aðgengileg á bæjarskrifstofum, Hafnarstræti 1, Ísafirði, og í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar frá 20. október 2023 til 17. nóvember 2023.
Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við tillöguna á kynningartíma. Athugasemdum skal skilað í Skipulagsgáttina eða senda skriflega til Ísafjarðarbæjar, Hafnarstræti 1, 400 Ísafirði, b.t. skipulagsfulltrúa eða á skipulag@isafjordur.is .
Skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar