Fjórðungþing að vori fór fram á Ísafirði
Fjórðungsþing að vori var haldið miðvikudaginn 10. apríl í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar komu saman kjörnir fulltrúar á Vestfjörðum. Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga og þeirra rekstrareininga sem það ber ábyrgð á. Auk þess fór fram afgreiðsla ársreiknings 2023 og samþykkt endurskoðuð fjárhagsáætlun.
Jóhann Birkir Helgason var kosinn aðalmaður í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga í stað Aðalsteins Egils Traustasonar sem nú lætur af störfum. Dagný Finnbjörnsdóttir var kosin varamaður í stjórn og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir kosin varamaður í fjárhagsnefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga. Fyrir þinginu lá að kjósa kjörnefnd fyrir Fjórðungsþing að hausti en var því frestað vegna væntanlegra kosninga í nýju sveitarfélagi á suðursvæði Vestfjarða. Kosning verður kláruð á sumarþingi sem fer fram á netinu 19. júní. Samþykkt var að halda 69. Fjórðungsþing að hausti á Laugarhóli í Bjarnarfirði dagana 18. og 19. október.
Hrafnkell Proppé og Héðinn Unnsteinsson frá VSÓ ráðgjöf/Urbana kynntu drög að lýsingu á Svæðisskipulagi Vestfjarða sem nú er í vinnslu. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er í það mikilvæga verkefni að gera sameiginlegt skipulag sem þetta fyrir svæðið í heild sinni. Áætlað er að vinna við það taki um tvö ár og verður það unnið í nánu samstarfi við Vestfirðinga á breiðum grunni. Einnig kynntu þeir drög að markmiðum og áherslum Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029 sem einnig er í vinnslu um þessar mundir. Í lok kynningar þeirra fóru fram umræður sveitarstjórnarfólks um efni lýsingar og mikilvægi þess að staðið sé vel að þessari vinnu.
Á næstu dögum kemur inn upptaka frá kynningu Hrafnkels og Héðins á vef Vestfjarðastofu.