Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1032. fundur 01. október 2018 kl. 08:05 - 09:52 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
  • Daníel Jakobsson formaður
  • Marzellíus Sveinbjörnsson varaformaður
Starfsmenn
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
  • Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Leyfi til laxeldis felld úr gildi - úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála - 2018090089

Lagðir fram úrskurðir Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 27. september sl., þar sem felld eru úr gildi starfsleyfi Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm til laxeldis í sjókvíum.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar harmar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi í gær úr gildi tvö rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitti Fjarðarlaxi og Arctic Sea Farm til eldis á 17.500 tonnum af laxi á Patreksfirði og Tálknafirði. Ljóst er að úrskurðurinn mun hafa gríðarleg áhrif á atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum sem og á landið í heild en gera má ráð fyrir miklu tapi á útflutningstekjum vegna úrskurðarins. Bæjarstjórn krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða til að tryggja áframhaldandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er áfellisdómur yfir Alþingi, ríkisstjórn og eftirlitsstofnunum og ljóst er að með skorti á stefnu, aðgerðarleysi og mistökum hafa yfirvöld haft grafalvarleg áhrif á atvinnuuppbyggingu og starfsöryggi fjölda manns. Framtíð fjölda fólks og margra byggðarlaga er sett í uppnám með einu pennastriki. Umhugsunarvert er hvernig stjórnsýslan hefur þróað með sér kerfi þar sem ákvarðanir eru teknar án þess að minnst sé á fólk, fjölskyldur eða samfélagslegar afleiðingar.

Vestfirðingar hafa gegnum aldirnar byggt afkomu sína á sjávarútvegi og er eini landshlutinn á Íslandi þar sem öll sveitarfélögin hafa umhverfisvottun Earth Check. Fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein sem skapað getur umtalsverð útflutningsverðmæti fyrir land og þjóð og haft í för með sér jákvæða íbúaþróun. Þá eru Vestfirðir stóriðjulausir og fjórðungurinn verður það áfram um ókomna tíð. Í ljósi þessa eru Vestfirðir í fararbroddi þegar kemur að umhverfismálum landsins.

Úrskurðurinn vekur jafnframt upp spurningar um stöðu annarra atvinnugreina og nýtingu náttúrunnar, hvort sem er til fiskeldis, ferðaþjónustu eða landbúnaðar, gagnvart jafn fordæmalausri og ósvífinni hagsmunabaráttu fámennra hópa auðmanna sem hafa að engu hagsmuni samfélaga.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er forviða yfir þessum úrskurði og beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að horfa til heildarhagsmuna þjóðarinnar í málefnum fiskeldis, sem er atvinnugrein í örum vexti á heimsvísu, enda ein umhverfisvænasta framleiðsluaðferð á matvælum sem mannkynið býr yfir. Mikilvægt er að fiskeldisuppbygging endi ekki í þeim sorglega farvegi að velkjast um í kerfinu í áratugi með óbætanlegu tjóni fyrir fyrirtækin, samfélögin sem um ræðir og þjóðarbúið.

2.Umræður um samgönguáætlun - 2015040052

Umræður um upplýsingar sem borist hafa úr samgönguáætlun 2019-2022.
Bæjarráð ísafjarðarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ekki sé gert ráð fyrir verklokum og meginþunga framkvæmda við Dynjandisheiði fyrr en á 2. tímabili samgönguáætlunar. Dýrafjarðargöng verða botnlangi að Mjólká eftir að framkvæmd við þau lýkur þar til vegurinn um Dynjandisheiði hefur verið lagður. Beðið hefur verið eftir þessu verkefni í áratugi og algjörlega óásættanlegt ef framkvæmdum verður ekki flýtt.
Einnig lýsir bæjarráð Ísafjarðarbæjar yfir vonbrigðum með að framkvæmdir við Sundabakka á Ísafirði séu ekki framar í tímaröðinni enda er þar um mikilvægt atvinnuuppbyggingarmál að ræða sem beðið er eftir og óhjákvæmilegt annað en að hefjast strax handa við þá uppbyggingu.

3.Tillaga til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, 19. mál. - 2018020003

Lagður fram tölvupóstur Hildar Edwald f.h. nefndasviðs Alþingis, dagsettur 26. september sl., þar sem Ísafjarðarbæ er send til umsagnar tillaga til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, 19. mál. Umsagnarfrestur er til 17. október nk.
Ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar vegna tillögu til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, 19. mál 149. löggjafarþings.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar þeim áhuga á málefnum innflytjenda sem kemur fram í tillögunni, en bendir á að á Ísafirði er starfrækt ríkisstofnunin Fjölmenningarsetur sem hefur nákvæmlega sama hlutverk og fyrirhuguð ráðgjafarstofa sem lagt er til að setja á fót og því algjörlega óþarft að setja á stofn nýja stofnun með nákvæmlega sama hlutverk eins og skýrt kemur fram í greinargerðinni: „Við skipulag ráðgjafarstofu innflytjenda verði sérstaklega horft til Fjölmenningarseturs og verkefna þess“.
Af greinargerð tillögunnar má ráða að það eina sem þeir sem að henni standa hafa á móti núverandi fyrirkomulagi, sem bundið er í lög um málefni innflytjenda nr. 116/2012, er að stofnunin er staðsett á Ísafirði en ekki í Reykjavík.
Fjölmenningarsetur var opnað sem tilraunaverkefni árið 2000 en hefur verið undirstofnun velferðarráðuneytis síðan 2012. Alla sína tíð hefur stofnunin verið fjársvelt og mátt þola allmargar atlögur að tilveru sinni, nú síðast þann 18. september þegar umrædd tillaga til þingsályktunar var lögð fram. Þrátt fyrir það hefur stofnunin sinnt veigamiklu þjónustuhlutverki við innflytjendur um allt land.
Bæjarstjórn leggur til að fallið verði frá hugmyndum um nýja stofnun sem hefur nákvæmlega sama hlutverk, en þess í stað verði rekstur Fjölmenningarseturs efldur, meðal annars með þjónustuútibúum þar sem þurfa þykir, t.d. á höfuðborgarsvæðinu.

4.Fjárhagsáætlun 2019 - forsendur fjárhagsáætlunar - 2018030083

Lagt er fram minnisblað Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra, dags. 28. september sl., varðandi forsendur fjárhagsáætlunar 2019-2022.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar staðfestir að eftirfarandi forsendur verði notaðar í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2019 sem nú fer í vinnslu og er gert ráð fyrir að þriggja ára áætlun fyrir árin 2020 til 2022 verði á sama verðlagi:

- Verðbólga - notuð verði raunverðbólga síðustu 12 mánaða
- Launahækkun - í samræmi við kjarasamninga
- Fasteignaskattur - fasteignamat hækkar um 12,7% skv. Þjóðskrá Íslands
- Útsvarstekjur - samkvæmt áætlun sambandsins sem liggur fyrir í október
- Jöfnunarsjóður - samkvæmt áætlun Jöfnunarsjóðs sem liggur fyrir í október
- Aðrar þjónustutekjur - 2,9%

Bæjarráð hvetur nefndir til að gera greiningu á þróun gjaldskráa m.t.t. hækkana hjá öðrum sveitarfélögum og hlutfallslegrar skiptingu gjalda íbúa og sveitarfélagsins og þróun síðustu ára.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna leiðir til að lækka verð máltíða í mötuneytum skóla sveitarfélagsins.

5.Úlfsá - Umsókn um framkvæmdaleyfi - 2018030010

Kynntur er tölvupóstur Andra Árnasonar, bæjarlögmanns frá 27. september sl ásamt drögum að greinargerð í máli vegna OV og AB fasteigna, vegna virkjunarréttar í Úlfsá.
Málið kynnt.

6.Framtíðarhúsnæði fyrir skjalasafnið - 2014050036

Kynntur er tölvupóstur Andra Árnasonar, hrl., dags. 27. september sl, ásamt drögum að greinargerð í máli Hraðfrystihússins Norðurtanga ehf. gegn Ísafjarðarbæ.
Staða málsins kynnt fyrir bæjarráði.

Gestir

  • Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs - mæting: 08:50

7.Sindragata 4a - umsókn um stofnframlag. - 2016100023

Umræður um fjölbýlishús sem Ísafjarðarbæjar byggir að Sindragötu 4a.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íbúðir í Sindragötu 4a verði seldar. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að koma með tillögu að verði og söluferli.

Gestir

  • Margrét Geirsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs - mæting: 09:25

8.Sundhöll Ísafjarðar - 2015090052

Lagt fram minnisblað Brynjars Þórs Jónassonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, dagsett 26. september 2018, þar sem óskað er eftir afstöðu bæjarráðs til áframhaldandi vinnu í kjölfar samkeppni um Sundhöll Ísafjarðar.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að vinna ekki áfram með tillögur að endurbótum á Sundhöll Ísafjarðar eins og lagt var til í samkeppni um endurbætur hennar.

9.Stefnumótun í atvinnumálum Ísafjarðarbæjar - 2010080057

Á 143. fundi atvinnu- og menningarmálanefndar lagði nefndin til við bæjarráð að atvinnumálastefna Ísafjarðarbæjar, útgefin í febrúar 2014, verði endurskoðuð og endurgerð og gert verði ráð fyrir kostnaði vegna stefnunnar á árinu 2019.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að fá tilboð í endurskoðun og endurgerð atvinnumálastefnunnar. Bæjarráð vísar verkefninu til fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar 2019.

10.Málefnahópur ferðaþjónustu á Vestfjörðum - 2018090066

Lagt er fram bréf Magneu Garðarsdóttur, f.h. Vestfjarðarstofu, dags. 19. september sl.,vegna stofnunar málefnahóps ferðaþjónustu á Vestfjörðum, þar sem óskað er eftir vinnuframlagi og greiðslu ferðakostnaðar vegna funda málefnahópsins. Jafnframt er óskað eftir að sveitarfélagið leggi til aðstöðu og veitingar fyrir einn fund á ári.
Bæjarráð samþykkir beiðni Vestfjarðarstofu og felur bæjarstjóra að tilnefna starfsmann í verkefnið.

11.Framlög vegna tónlistarnáms utan lögheimilissveitarfélags skólaárið 2018-2019 - 2018090086

Lagt fram bréf Guðna Geirs Einarssonar og Gústavs Arons Gústavssonar f.h. Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dagsett 25. september sl., þar sem óskað er eftir umsóknum um framlög vegna tónlistarnáms utan lögheimilissveitarfélags.
Lagt fram til kynningar og vísað til skóla- og tómstundasviðs til úrvinnslu.

12.Yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga - 2018090083

Lagður fram tölvupóstur Jóhönnu Sigurjónsdóttur f.h. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dagsettur 21. september sl., þar sem vakin er athygli á að ráðuneytið hefur tekið saman yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga skv. 1.mgr. 7. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Lagt fram til kynningar.

13.Aukaaðalfundur BsVest 2018 - 2018090084

Lagt fram fundarboð vegna aukaaðalfundar Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, sem haldinn verður 6. október nk.
Bæjarráð tilnefnir bæjarfulltrúa og varafulltrúa bæjarráðs sem fulltrúa Ísafjarðarbæjar á aukaaðalfund Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks.

14.Atvinnu- og menningarmálanefnd - 143 - 1809023F

Fundargerð 143. fundar atvinnu- og menningarmálanefndar sem haldinn var 27. september sl. Fundargerðin er í 4 liðum.
Lagt fram til kynningar.

15.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 505 - 1809019F

Fundargerð 505. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 26. september sl. Fundargerðin er í 4 liðum.
Lagt fram til kynningar.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 505 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að Sigfús Bergmann Önundarson, fái lóð við Eyrargötu 11, skv. núgildandi skipulagi og umsókn dags. 24.11.2018, með þeim reglum sem í gildi eru og settar kunna að verða. Lóðarumsókn fellur úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 6 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 505 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila útgáfu framkvæmdaleyfis vegna skurðar sunnan Grímsvatns, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja og samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 505 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila að uppdráttur og greinargerð dags. 26.09.2018 verði auglýst skv. 1.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010

16.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 71 - 1809018F

Fundargerð 71. fundar umhverfis - og framkvæmdanefndar, sem haldinn var 25. september sl. Fundargerðin er í 3 liðum.
Lagt fram til kynningar.
  • 16.1 2018030083 Gjaldskrár 2019
    Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 71 Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til að gjaldskrár fylgi áætlaðri verðlagsþróun næsta árs. Gjaldskrá tjaldsvæða hækki ekki í ár, þar sem gjaldliðir hennar standa á heilu hundraði.
  • 16.2 2018080026 Samþykkt um sorpmál
    Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 71 Nefndin leggur til við bæjarstjórn að samþykkt um sorpmál verði samþykkt.

Fundi slitið - kl. 09:52.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?