Vistgötuskilti rísa
Vistgötuskilti hafa verið sett upp á nokkrum stöðum í neðri bæ Ísafjarðar, en til stendur að gera Tangagötu, Smiðjugötu og Þvergötu að svokölluðum vistgötum. Þær eru fyrst og fremst ætlaðar gangandi og hjólandi vegfarendum, en þó er leyfilegt að aka um þær. Keyrandi og hjólandi fá þó ekki að fara hraðar en á gönguhraða og skulu víkja fyrir gangandi umferð. Bílastæði á vistgötum eru fá og skýrt afmörkuð.
Þessar þrjár götur; Tangagata, Smiðjugata og Þvergata, eru allar gangstéttarlausar einstefnugötur og þykja því henta einstaklega vel sem vistgötur. Silfurgata er enn með hefðbundnu sniði, þ.e.a.s. malbikuð gata með afmarkaðri gangbraut, og verður því ekki gerð að vistgötu enn um sinn. Þó er bara spurning hvenær en ekki hvort hún verður hellulögð eins og aðrar götur á þessu svæði og þá ætti hún að koma vel til greina sem vistgata.
Það fer m.a. eftir tíðarfari hvenær lokið verður við uppsetningu skiltanna og skilgreiningu gatnanna þannig formlega breytt, en í beinu framhaldi verður ráðist í frekari kynningu á þessu verkefni.