Vísindaport - Vináttusambönd yngstu barna leikskóla
Í Vísindaporti, föstudaginn 19. febrúar, mun Bryndís Gunnarsdóttir leikskólakennari og doktorsnemi við Waikato háskóla í Nýja Sjálandi, fjalla um vináttubönd yngstu barna leikskóla. Vísindaportið hefst sem fyrr kl. 12:10 í kaffisal Háskólaseturs og er opið öllum áhugasömum.
Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Bryndísar við Waikato háskóla í Hamilton á Nýja Sjálandi. Markmið rannsóknarinnar er að skoða vináttusambönd yngstu barna leikskólans (2 ára barnanna), hvernig þessi vinátta lítur út, hvernig börnin byggja vináttuna upp og hvernig þau halda henni við yfir lengri tíma (eitt skólaár). Samskipti barnanna eru tekin upp á myndband og tjáskipti þeirra greind í smáatriðum með samtalsgreiningu (conversation analysis). Það hefur oft verið litið fram hjá vináttusamböndum yngstu barnanna þar sem talið hefur verið að þessi sambönd séu ekki eins mikilvæg þeim og vinátta eldri barna, en nýlegar rannsóknir gefa til kynna að mjög ung börn geti þróað bæði flókin og djúp vináttusambönd við önnur börn á sama aldri. Með því að skoða ítarlega félagsleg samskipti og tjáskipti yngstu barnanna er það von mín að auka þekkingu og kunnáttu leikskólafagfólks um málefnið og auka þannig gæði leikskólastarfs með yngstu börnunum. Rannsóknin fer fram skólaárið 2015 til 2016 (okt.2015-júlí 2016).
Bryndís Gunnarsdóttir er menntaður leikskólakennari frá HÍ og stundar núna doktorsnám í menntavísindum við Waikato háskóla á Nýja Sjálandi. Hún starfar eins og er sem deildarstjóri á leikskólanum Sólborg á Ísafirði.