Vísindaport - Táknheimur og menning rekafjörunnar fyrr og nú

Gestur Vísindaports föstudaginn 1. apríl er Kristinn Schram, lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Erindi hans fjallar um táknheim og menningu rekafjörunnar fyrr og nú. Vísindaportið hefst kl. 12:10 í kaffisal Háskólaseturs og er öllum opið. fer fram á íslensku og er öllum opið.  

Ströndin gegnir margvíslegu hlutverki í upplifunum, athöfnum og heimsmynd fólks. Táknheimur hennar er mótsagnakenndur og dýnamískur og endurspeglar daglegt líf við hafið en einnig sérstaka atburði svo sem björgunarafrek og stríðsátök. Fjaran, sem skilur að land og haf, felur í sér í senn takmörk og möguleika. Hún er brú til umheimsins en markar jafnframt endimörk heimaslóðanna; mörk byggðar og hins óbyggilega; menningar og náttúru. Einkenni hennar eru hreyfanleiki, líf og lífsbjörg en það búa einnig hættur, harmur og dauði í táknheim strandarinnar. Það sem „rekur á fjörur“ ber þannig einkenni þessara óljósu marka. Hvort sem um ræðir rekavið, hvalreka, strönduð skip, öndvegissúlur, smyglvarning, flöskuskeyti, flóttamenn eða sjórekin lík,  þá endurspeglar „rekinn“ þessi óræðu og dýnamísku mörk.  Í Vísindaporti mun Kristinn velta upp hvernig rekafjaran birtist í fortíð og nútíð,  t.d.  í fornum átrúnaði, þjóðsögum og hversdagslegum frásögnum; nýlist, nytjalist og byggingarlist. Með hjálp góðra gesta mun hann leitast við að svara því með hvaða hætti fólk skynjar, skilur og upplifir rekafjöruna og gefur henni merkingu. 

Kristinn Schram er lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hann er doktor í þjóðfræði frá Edinborgarháskóla og hefur starfað sem forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir og Þjóðfræðistofu. Helsta rannsóknarsvið hans er þjóðfræði í þverþjóðlegum samskiptum og þjóðernislegum sjálfsmyndum. Í rannsóknum hans og Kötlu Kjartansdóttur er frásagnar- og efnismenning hreyfanlegra hópa í borgum Vestur-Evrópu og á vestnorræna svæðinu skoðuð í tengslum við menningarpólitík íslenskrar útrásar, efnahagshruns og norðurslóðastefnu. Kristinn hefur umsjón með rannsóknum, útgáfu, viðburðum og tengslanetum á sviði norðurslóða með áherslu á samfélag, menningu og loftslagsbreytingar.