Vísindaport - Svæðisgarður og brothættar byggðir
Í næsta Vísindaporti föstudaginn 18. janúar verður gestur okkar Agnes Arnardóttir, ferðamálafræðingur frá Háskólanum á Hólum. Agnes hefur í gegnum árin unnið að mörgum verkefnum tengdum ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu. Hún er nú starfsmaður Vestfjarðastofu og jafnframt verkefnisstjóri verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar sem er verkefni á vegum Byggðastofnunar um brothættar byggðir. Hún hóf störf hjá Vestfjarðastofu m.a. sem verkefnisstjóri brothættra byggða 1. september 2018 og flutti í tengslum við það til Þingeyrar frá Noregi.
Fyrirlesturinn mun að hluta til fjalla um þau verkefni sem Agnes var að sinna í Noregi og mun hún tengja þau við það sem hún er að gera í dag. Agnes vann hjá sveitarfélaginu sem hún bjó í í Noregi, Hemnes kommune, að undirbúningi að stofnun svæðisgarðs, sem var að sumu leyti liður í aðgerð sveitarfélagsins til að sporna við fólksfækkun í sveitarfélaginu. Fjallað verður aðeins um skilgreiningu á svæðisgarði og hvaða tækifæri geta falist í stofnun slíks garðs. Einnig verður fjallað um verkefnið brothættar byggðir, í stórum dráttum farið yfir hverju verkefninu er ætlað að skila og væntingar til þess. Verkefnin sem Agnes hefur verið að vinna að í Noregi og á Íslandi eru að mörgu leyti lík en að sama skapi ólík og eiga margt sameiginlegt, þar sem þau snúast um fámenn byggðalög sem hafa þurft að takast á við fólksfækkun, breyttar forsendur varðandi þróun atvinnutækifæra og breytta atvinnuhætti. Sveitarfélögin bregðast við á mismunandi hátt en markmiðið er það sama, að efla búsetu og stefna að fjölbreyttum atvinnutækifærum með það að markmiði að gera svæðið að ákjósanlegum búsetukost.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs og hefst kl 12:10