Vísindaport - Nýting sjávargróðurs og kræklinga

Í Vísindaporti vikunnar mun Dr. Peter Krost, kennari við Háskólasetur, kynna nýtingu sjávargróðurs og kræklinga. Erindið byggir á reynslu Peters af slíkri nýtingu í fyrirtækjum sem hann hefur stofnað eða er hluthafi í við Eystrasaltið. Í Eystrasalti er mikil sókn í sjávargróður og náttúruleg endurnýjun hæg. Þessi fyrirtæki hafa því brugðið á það ráð að rækta þörunga og hafa byggt upp reynslu í ræktun og vinnslu sjávargróðurs. Þar sem ofauðgun er flöskuhálsinn í öllu eldi í Eystrasalti í dag, og regluverkið mjög strangt, er hæfni sjávargróðurs og kræklinga til að draga næringarefni úr vatni mjög mikilvægur liður í ræktunarstarfinu.
Peter Krost mun einnig koma inn á það hvernig hægt er að nýta virku efnin úr afurðunum á margvíslegan máta og fikra sig þannig upp í virðiskeðjunni, en virku efnin úr þangframleiðslunni hjá þeim eru t.d. nýtt í snyrtivöruframleiðslu. Einnig mun hann koma inn á markaðssetningu sem á endanum er það sem sker úr um hvort ræktunarstarfið borgi sig.
Peter Krost útskrifaðist 1986 með meistaragráðu í líffræði frá Háskólanum í Kiel og 1990 lauk hann doktorsgráðu í sjávarvistfræði frá the Institute for Marine Science (Geomar). Í ritgerð sinni skoðaði hann áhrif botnveiðar á efnasamsetningu botnsins og botnlífverur í Eystrarsalti. 1995 stofnaði Peter ásamt tveimur öðrum, fyrirtækið CRM (Coastal Research and Management) sem leggur áherslu á sjálfbæra strandsvæðaþróun, með áherslu á umhverfismat, sjálfbært fiskeldi og úrtöku virkra efna úr sjó. CRM stofnaði þörungaræktun 1998 og hefur rekið kræklingaeldi frá 2010. Nú stýrir Peter námshóp um umhverfismat og fiskeldisdeildinni.  Peter hefur kennt námskeið um nýsköpun í fiskeldi við Háskólasetur frá árinu 2013.
Vísindaport eru opin fyrir almenning og að þessu sinni mun það fara fram á ensku.