Vísindaport - Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í skólastarfi

Í Vísindaporti vikunnar  mun Heiðrún Tryggvadóttir kynna niðurstöður rannsóknar sem hún vann í tengslum við meistaraverkefni sitt í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á leiðtoga, nýsköpun og stjórnun frá Háskóla Íslands. Í rannsókninni kannaði hún hvernig staðið var að innleiðingu nýjungar, námssviðsins nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar, í skólastarf.

Í Vísindaportinu mun Heiðrún segja frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar en jafnframt tengja niðurstöðurnar við skólastarf almennt og kynna hvað Menntaskólinn á Ísafirði er að gera þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlamennt en þar er ýmislegt spennandi í gangi.

Heiðrún Tryggvadóttir starfar sem áfanga- og gæðastjóri við Menntaskólann á Ísafirði. Hún er með BA próf í íslensku og hefur lokið kennslufræði til kennsluréttinda. Síðasta haust lauk hún meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á leiðtoga, nýsköpun og stjórnun frá Háskóla Íslands.

Vísindaportið hefst kl. 12:10 föstudaginn 15. apríl. Líkt og endranær fer það fram í kaffisal Háskólaseturs og er opið öllum.