Vísindaport - Guðmundur G. Hagalín og bandarískar nútíðarbókmenntir
Í Vísindaporti vikunnar mun Haukur Ingvarsson, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, fjalla um Guðmund G. Hagalín og bandarískar bókmenntir. Vísindaportið er að þessu sinni í boði prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar. Sem fyrr hefst erindið kl. 12:10 í kaffisal Háskólaseturs og er opið öllum.
Í erindi sínu mun Haukur fjalla um uppbyggingu bókasafnsins á Ísafirði sem hluta af menningarstefnu stjórnvalda á þriðja og fjórða áratugnum. Skoðað verður sérstaklega hvernig rithöfundurinn Guðmundur G. Hagalín rækti starf sitt sem bókavörður og hvernig áhugasvið hans sjálfs setti svip sinn á starfssemina. Að lokum verða áhrifin skoðuð með sérstakri áherslu á rithöfundinn Guðmund Daníelsson sem nýtti sér safnið meðan hann starfaði sem kennari á Suðureyri við Súgandafjörð undir lok fjórða áratugarins og í upphafi þess fimmta.
Haukur Ingvarsson er fæddur 12. febrúar 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2005 og hefur síðan fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Haukur kom fyrst fram sem ljóðskáld og tók m.a. þátt í ýmsum uppákomum á vegum Nýhils áður en fyrsta ljóðabók hans, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, leit dagsins ljós árið 2004. Hann hefur síðan sent frá sér fræðibókina Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsöguna Nóvember 1976 (2011), að auki hefur hann birt ljóð, þýðingar og greinar í bókum og tímaritum. Haukur leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Efni rannsóknarinnar er William Faulkner á Íslandi.