Vísindaport - Fornleifar og fiskur
Fornleifar og fiskur fara saman í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða. Þar mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum kynna rannsókn sem hún vinnur nú að og miðar að því að greina fæðu ýmissa fisktegunda við Vestfirði fyrr á öldum.
Við fornleifauppgröft í vestfirskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorsks. Líffræðilegar rannsóknir á þessum fornleifafræðilega efniviði gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma, t.d. vegna veiða og loftslagsbreytinga. Með því að greina stöðugar efnasamsætur karbons (δ13C) og niturs (δ15N) í fiskbeinum má t.d. rannsaka fæðu og breytingar á fæðu algengra íslenskra fiskitegunda frá landnámi Íslands.
Í fyrirlestrinum mun Guðbjörg kynna nýjar niðurstöður þar sem þessum aðferðum er beitt til að rannsaka fæðu þorsks, lúðu, steinbíts, ýsu og karfa við Vestfirði á tímabilinu 970-1910. Niðurstöðurnar gefa til kynna töluverðar sveiflur í fæðu fiskanna yfir tímabilið auk breytinga á fjölbreytileika fæðunnar og fæðusamkeppni milli fisktegunda. Áberandi tímabil vistkerfisbreytinga virðast vera annarsvegar við upphaf „litlu ísaldar“ og hinsvegar um 1900.
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir lauk BSc námi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og PhD námi í sama fagi frá Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi 2005. Hún starfar nú sem forstöðumaður og rannsóknasérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Áhugi Guðbjargar innan líffræðinnar beinist að því hvernig breytileiki og breytingar í umhverfi, þar með taldar breytingar af mannavöldum, hafa áhrif á tilurð og viðhald líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðustu árum hefur hún fyrst og fremst rannsakað líffræði fiskistofna.
Vísindaport stendur frá 12.10-13.00 og er opið öllum áhugasömum. Erindi vikunnar fer fram á íslensku.