Vísindaport - Breyttir tímar, nýjar aðferðir, hugrakkari leiðtogar

Stjórnunaraðferðir verða til umfjöllunar í Vísindaporti á föstudag í Háskólasetri Vestfjarða en þá mun Sigurborg Kr. Hannesdóttir, ráðgjafi, flytja fyrirlestur um það hvernig hægt er að virkja fleiri við ákvarðanatökur. Stjórnunaraðferðir eru stöðugt að þróast og breytast og sífellt fleiri stjórnendur leggja áherslu á að vinna með samstarfsfólki og viðskiptavinum/þjónustuþegum í tengslum við stefnumótun og ákvarðanir. Almenningur kallar líka eftir slíkum breyttum vinnubrögðum af hálfu fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga og ríkisstjórnar.

Í erindinu verður sagt frá því fagi sem kallast „Þátttaka almennings“, hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar til að hún skili árangri og virki bæði fyrir stjórnendur og þau sem taka þátt í samtalinu. Einnig er fjallað um samtalið sjálft, þar sem horfið er frá hefðbundnum fundum þar sem stíga þarf í pontu og til aðferða sem bjóða upp á breiðari þátttöku. Loks verður sjónum beint að leiðtogunum, hugrekki og valdeflingu.

Sigurborg Kr. Hannesdóttir er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Síðustu 17 ár hefur hún sérhæft sig í samráðsaðferðum og valdeflandi fundaformum og starfar sem ráðgjafi á því sviði. Sigurborg hefur meistaragráðu í þróun og skipulagningu ferðamála frá Surreyháskóla í Bretlandi en hafði áður lokið BA prófi í félagsfræði og félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Jafnframt hefur hún kennararéttindi í jóga og 5Rytma dansi og hefur nokkuð fengist við sagnalist. Sem ráðgjafi hefur hún m.a. stýrt íbúaþingum í sveitarfélögum víða um land, hefur sjálf setið í sveitarstjórn og haldið námskeið og sinnt verkefnisstjórnun. Sigurborg býr í Grundarfirði og rekur eigið ráðgjafarfyrirtæki, ILDI.

Vísindaport stendur frá 12.10-13.00 og er opið öllum. Erindi vikunnar verður flutt á íslensku.