Vísindaport - Bann Evrópusambandsins á fiskveiðum með rafmagni: staðreyndir, sjónarmið og málafylgja
Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 5.apríl mun gestur okkar David Goldsborough fjalla um fiskveiðar með rafmagni innan Evrópusambandsins. Þann 13. febrúar 2019 samþykkti Evrópusambandið að banna rafmagnsveiðar og var þetta gert í framhaldi af því að slíkar veiðar voru bannaðar í Evrópuþinginu 16. janúar árið áður. Það hafði í för með sér að helmingi þeirra 84 hollenskra togara sem höfðu verið að nota þessa aðferð við veiðar var gert að hætta veiðum án tafar. Hinn helmingur togaraflotans fær bráðabirgðaleyfi sem gildir til júlí mánaðar árið 2021. Sjávarútvegsráðherra Hollands hefur nú veitt sjómönnum landsins framlengingu leyfis til fiskveiða með rafmagni til 1. júní 2019.
David Goldsborough starfar við Van Hall Larenstein-háskólann (VHL) í Leeuwarden í Hollandi. Hann er umhverfisfræðingur að mennt og hefur í gegnum árin meðal annars fengist við kennslu og rannsóknir á mengun í jarðvegi, umhverfisvernd og stjórnun vatnsgæða. Síðan 2002 hefur David kennt við námsleið í haf- og strandsvæðastjórnun við VHL og kennir hann sem dæmi námskeið um skipulag hafsvæða, sjálfbæra stjórnun eyjasvæða, sjálfbærar fiskveiðar og sjóeldi. Hann hefur þar að auki meðal annars komið að stórum rannsóknarverkefnum sem snúa að skipulagi hafsvæða og verndarsvæðum í sjó. David hefur nú bæst í hóp kennara við námsleiðina í haf- og strandsvæðastjórnun hér við Háskólasetur Vestfjarða og kennir hann námskeiðið Marine spatial planning (skipulag hafssvæða).
Vísindaportið fer fram kl. 12:10-13 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir. Erindið verður að þessu sinni flutt á ensku..