Vísindaport - Áhrif persónuleika á starfsráp

Gestur vikunnar í Vísindaporti er Baldur Ingi Jónasson, mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar og mun hann kynna meistararannsókn sína sem fjallar um starfsráp (en. job hopping behaviour). Við val á nýju starfsfólki þurfa fyrirtæki að taka tillit til fjölmargra þátta. Einn af þeim er svokallað starfsráp, sem felst í tilhneigingu einstaklinga til að flakka ítrekað á milli starfa. Mikil starfsmannavelta er álitin hafa neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja og því felast hagsmunir í að greina hvaða þættir geta haft áhrif á hana. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga hvort persónuleikaþættirnir samviskusemi, samvinnuþýði og taugaveiklun hefðu tengsl við starfsráp, með tilliti til innri áhugahvatar.

Baldur Ingi Jónasson er Ísfirðingur ættaður úr Djúpinu, lauk námi sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni 1994. Starfaði hann sem íþróttakennari og almennur kennari í Grunnskólanum á Ísafirði frá 1994 til 1996, í Menntaskólanum á Ísafirði frá 1996 til 1998 og í Súðavíkurskóla frá 1999 til 2007. Þá lauk hann B.A. gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2010 og M.S. gráðu í félags- og vinnusálfræði frá Háskóla Íslands 2012. Baldur starfaði sem mannauðsráðgjafi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í fjögur ár og hefur starfað sem mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar frá byrjun janúar 2017.

Vísindaportið hefst að vanda kl 12:10, er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs.