Vísindaport - Áhrif loftslagsbreytingar á mengun á norðurslóðum

Eftir gott og langt jólafrí hefst Vísindaportið að nýju, föstudaginn 22. janúar kl. 12:10. Fyrst til að halda erindi á þessu ári er kennari við námsleiðina í haf- og strandsvæðastjórnun, Pernilla Carlsson. Í erindi sínu fjallar hún um áhrif loftslagsbreytinga á mengun á norðurslóðum.

 

Þrávirk lífræn efni (POP) finnast, þrátt fyrir bönn og reglugerðir í öllum tegundum umhverfa. Til viðbótar við gömul og þekkt efni hafa ný efni skotið upp kollinum á norðurslóðum.  Til að skilja betur hegðun þeirra í umhverfinu, í tengslum við breytingar á loftslagi og aðra tengda þætti, hefur AMAP (Arctic Monitoring Assessment Programme) haft frumkvæði að rannsókn um þetta.
Rannsóknin miðar að því að skoða afdrif þrávirkra lífrænna efna og kvikasilfurs við norðurheimskautið bæði miðað við stöðuna í dag og eins hvað varðar framtíðarhorfur.
Mikilvæg aðferð við rannsóknir af þessu tagi er köfun og mun Pernilla m.a. sýna ljósmyndir sem sýna hvernig köfun undir ís fer fram og hvernig slíkar köfunaraðferðir eru nýtta við rannsóknir.
Nýdoktorinn Pernilla Carlsson lauk doktorsprófi frá Háskólasetrinu á Svalbarða með ritgerð sem ber titilinn Selective uptake processes of environmental pollutants induced by climate changes. Pernilla bjó á Svalbarða í fimm ár þar sem hún stundaði rannsóknir og kennslu auk þess að reka köfunarþjónustu og þjálfa sleðahunda. Þessa dagana kennir hún námskeiðið Pollution in the Coastal Arctic í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. 
Vísindaportin eru öllum opin og að þessu sinni fer það fram á ensku.