Vísindaport - Aðstæður flóttafólks frá Sýrlandi
Gestur vikunnar í Vísindaporti er Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, túlkur og menningarmiðlari flóttamanna á norðanverðum Vestfjörðum. Hún mun fjalla um stríðið í Sýrlandi og líf í flóttamannabúðum í nágrenninu, með öðrum orðum gera grein fyrir þeim veruleika sem hluti hinna nýju íbúa okkar koma úr. Skoðað verður hvernig tiltölulega sakleysisleg mótmælaalda gegn stjórnvöldum, hluti hins svokallaða arabíska vors í Sýrlandi árið 2011, sprakk út í allsherjar styrjöld á ógnarhraða, með fjölda utanaðkomandi fylkinga og bandalaga. Langvarandi stríðið hefur kippt lífinu undan fótum milljóna Sýrlendinga sem neyðst hafa til að flýja heimkynnin sín; fjölskyldu, vini, vinnufélaga, garðinn með sítrónutrjám og kryddjurtum, halda útí óvissuna í leit að skjóli og nýjum heimkynnum, líkt og í tilfelli fólksins sem er nú á leið til Íslands.
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er mannfræðingur frá Háskóla Íslands og undanfarin ár tekið þátt í fjölmiðlaumræðu um málefni Miðausturlanda, þ. á m. átökunum í Sýrlandi, Írak og Jemen, auðlinda- og yfirráðapólitík (geo-politics) sem oftar en ekki er undirliggjandi ástæða átakanna, kvenréttindabaráttu svæðisins einkum við Arabíuflóa og íslamskan femínisma og íslamófóbíu. Guðrún Margrét bjó bjó við Arabíuflóa og Jemen, á árunum 1985 – 1995 og hefur einnig dvalið þar langdvölum sl. 10 ár, m.a. við rannsóknir. Einnig starfaði hún hjá Íslensku friðargæslunni hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í Kairó á síðasta ári.
Vísindaportið hefst að vanda kl 12:10, er opið öllum og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs.