Vísindaport - Á reki í sandinum: Spennan á milli óraskaðs vistkerfis á Sable Island og ágangs farþega skemmtiskipa
Gestur í Vísindaporti vikunnar, sem er jafnframt það síðasta í vetur, er dr. Pat Maher, stundakennari við Háskólasetur Vestfjarða. Í erindi sínu mun Pat fjalla um þá tegund skemmtiskipaferðamennsku sem á ensku er nefnd ”expedition cruise ships”, sem þýða mætti sem leiðangursskemmtiskip. Á áætlun slíkra ferða eru heimsóknir til áfangastaða utan alfaraleiðar, afskekktra svæða með heillandi náttúrufari þar sem fáir hafa áður stigið fæti. Upplifun farþega mætti því líkja við landkönnun eða rannsóknarleiðangur. Eyjan Sable Island sem er lítil eyja við austurströnd Kanada er dæmi um slíkan áfangastað og er hún viðfangsefni erindisins.
Sumarið 2014 var tekið á móti fyrstu skipulögðu heimsóknum skemmtiskipa í eyjunni en þá komu tvö skip. Voru þessar heimsóknir um leið nokkurs konar tilrauna- eða vísindaferðir, en í þessum leiðöngrum var gögnum safnað sem nýtt voru fyrir stefnumótun á eyjunni. Sable Island er jafnframt nýjasti þjóðgarður Kanada og spurðu menn sig hvort það væri ábyrgðarlaust að leyfa komur skemmtiskipa til þessarar afskekktu eyju í Norður-Atlantshafi, eyju sem hefur afgerandi vísindalegt gildi.
Farþegar fengu að taka þátt í tveimur spurningakönnunum, annars vegar um væntingar þeirra fyrir landtöku og hins vegar um upplifun þeirra eftir að þessari fyrstu heimsókn í eyjuna var lokið. Niðurstöðurnar gefa innsýn í þann vanda að finna jafnvægi milli þess að vernda viðkvæmt vistkerfi og að bjóða skemmtiskipafarþegum upp á einstaka upplifun. Í erindinu verður rannsóknin einnig sett í norrænt samhengi, en skemmtiskipaleiðangrar til Sable Island eiga margt sameiginlegt með komum skemmtiskipa til Svalbarðs, Grænlands og fleiri afskekktra áfangastaða.
Patrick Maher er með doktorsgráðu í ferðamálafræði og umhverfisfræði frá Lincoln-háskóla í Canterbury, Nýja-Sjálandi. Doktorsrannsókn sína vann hann við Ross-hafsvæðið í Suðurskautslandinu. Pat er dósent við Cape Breton-háskólann í Nova Scotia í Kanada. Einnig er hann er formaður alþjóðlegs tengslanets Norðurskautsrannsókna (International Polar Tourism Research Network) og félagi í hinu Konunglega kanadíska landafræðifélagi (Royal Canadian Geographical Society). Árið 2014 hlaut Pat hin virtu 3M National Teaching Fellowship kennsluverðlaun. Hann hefur birt fjölmargar fræðigreinar og einnig ritstýrt bókum á sínu fræðasviði. Hér við Háskólastrið kennir Pat námskeiðið Arctic Marine Tourism.
Vísindaportið fer fram kl. 12:10-13:00 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir. Þetta erindi verður flutt á ensku.