Vika 8: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagný Finnbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSV prófar píluaðstöðuna hjá Skotís.
Dagný Finnbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSV prófar píluaðstöðuna hjá Skotís.

Dagbók bæjarstjóra dagana 20.-26. febrúar 2023.

Bæjarráð og bæjarstjórn funduðu í vikunni. Tekin var fyrri umræða um Velferðarþjónustu Vestfjarða sem felur í sér að Ísafjarðarbær verði leiðandi sveitarfélag í barnaverndarþjónustu og málefnum fatlaðra. Þetta er stórt og krefjandi verkefni fyrir bæinn en ég er sannfærð um að þetta verði til hagsbóta fyrir sveitarfélögin, en mikilvægt skref til að einfalda kerfið og samræma þjónustu á þessu sviði. Þetta fyrirkomulag á ekki að hafa nein áhrif á þá þjónustu sem er verið er að veita, og starfsmönnum í velferðarþjónustu gefst tækifæri til að vinna þéttara saman og deila þekkingu. Nú þegar hafa Vesturbyggð og Reykhólahreppur tekið jákvætt í samstarfið. Aðrar sveitarstjórnir á Vestfjörðum munu fjalla um málið á næstu vikum.

 

Fylliefni sem dælt hefur verið upp á Suðurtanga.
Fylliefni sem dælt hefur verið upp á Suðurtanga.

Við erum enn að fást við hvað eigi að gera við umframsandinn sem er verið að dæla upp úr Sundunum. Málið var á dagskrá bæjarstjórnarfundar í vikunni en var frestað þar sem bæjarfulltrúar vilja fá frekari upplýsingar um áhrif þess að dæla sandinum við Pollgötuna á útrásir sem þar eru staðsettar. Dæluskipið Sóley sem hefur verið að störfum hér undanfarið bilaði, þannig að uppdælingin er komin í smá stopp.

Bæjarstjórn úthlutaði lóðum. Landsbyggðarhús fékk lóð sem rúmar sex raðhús í Tunguhverfi á Ísafirði en fyrirtækið er að fara að byggja fyrir leigufélagið Bríet, sem er óhagnarðardrifið leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Einnig úthlutaði bæjarstjórn einbýlishúsalóð á Suðureyri til Nostalgíu. Góðar fréttir fyrir húsnæðismarkaðinn.

Bæjarstjórn samþykkti fimm uppbyggingarsamninga til íþróttafélaga. Skotíþróttafélag Ísafjarðar, Golfklúbbur, Ísafjarðar, Blakdeild Vestra, Golfklúbburinn Gláma og Körfuknattleiksdeild Vestra voru þau félög sem sóttu um og fengu samning.

Annars var talsvert mikið um allskonar og fjölbreytta fundi í vikunni sem fjölluðu til að mynda um skemmtiferðaskip, félagsheimili og leikskóla svo eitthvað sé nefnt. Einnig var stjórnarfundur í Lánasjóði sveitarfélaga.

Sveitarfélögin við Djúp funduðu sameiginlega með Vegagerðinni til að ræða almenningssamgöngur. Ísafjarðarbær er að undirbúa útboð og spurningin er hvort hægt sé að nýta það fjármagn sem sett er í málaflokkinn betur og gera leiðakerfið skilvirkara.

Við Bryndís bæjarritari áttum vinnudag á Þingeyri. Á leiðinni þangað fengum við fréttir af stórbruna í nýbyggingu hjá Arctic Fish á Tálknafirði. Mikið tjón blasir við en gott að enginn slasaðist alvarlega. Engan bilbug er að finna hjá fyrirtækinu sem heldur ótrautt áfram sinni uppbyggingu.

Elfar Logi og Arna Lára við undirritun samningsins.Elfar Logi og Arna Lára við undirritun samnings Ísafjarðarbæjar og Kómedíuleikhússins.

Á Þingeyri hittum við fyrir Elfar Loga og Marsibil og var tilefnið að undirrita áframhaldandi samstarfssamning við Kómedíuleikhúsið. Við hittum líka félaga í handverkhópnum Koltru og ræddum komandi sumar og upplýsingagjöf til ferðamanna.

Jóhann Króknes Torfason með Hafsteini Pálssyni, 2. varaforseta ÍSÍ. Mynd: KSÍ.
Jóhann Króknes Torfason með Hafsteini Pálssyni, 2. varaforseta ÍSÍ. Mynd: KSÍ.

KSÍ hélt ársþing á Ísafirði um helgina. Ég fékk þann heiður að ávarpa samkomuna og gat ekki annað en hrósað þeim fyrir þá djörfu ákvörðun að halda þingið á Ísafirði í febrúar. Mér finnst þetta alveg til fyrirmyndar hjá KSÍ að halda ársþing sín reglulega út á landi. Stóru fréttirnar af þinginu fyrir leikmann eins og mig voru þær að Jói Torfa var sæmdur heiðurskrossi frá ÍSÍ fyrir framlag sitt til knattspyrnunnar og hann er svo sannanlega vel að því komin. Okkar kona, Tinna Hrund Hlynsdóttir, var kjörin í stjórn KSÍ þannig að allt er þar í toppmálum.

Ný aðstaða Skotís fyrir píludeildina.
Ný aðstaða Skotís fyrir píludeildina.

Skotíþróttafélag Ísafjarðar hefur sett á fót sérstaka píludeild innan félagsins og opnaði aðstöðu til æfinga um helgina. Við Dagný, framkvæmdastjóri HSV, mættum og tókum nokkur köst. Niðurstaðan er sú að Dagný er mikið efni og það er mikið svigrúm til bætinga hjá undirritaðri. Þetta er mjög flott aðstaða og stefnan hjá Skotís er að vera með æfingar þrisvar í viku í þessari sívaxandi íþrótt.