Vika 7: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 13.-19. febrúar 2023
Dagbókin er örlítið snubbótt þessa vikuna, þar sem vetrarfrí grunnskólans hafði talsverð áhrif á vinnuafköstin.
Vikan byrjaði sem fyrr á fundi bæjarráðs og þessu sinni fengum við góða gesti frá Knattspyrnudeild Vestra. Það voru þau Svavar Guðmundsson formaður knattspyrnudeildar Vestra, Tinna Hrund Hlynsdóttir formaður barna- og unglingaráðs og Samúels Samúelsson formaður meistraflokks karla. Markmiðið með þeim fundi var að heyra þeirra sjónarmið þegar kemur að nýja gervigrasvellinum.
Það er að mörgu að hyggja, t.d. eiga að vera hitalagnir, vökvunarkerfi, hvers konar gervisgras o.s.frv. Ætlunin er að gera sem mest fyrir það fjármagn sem við erum með áætlað í þetta verkefni.
Mögulegt losunarsvæði í Pollinum. Mynd: Vegagerðin.
Einnig var tekin fyrir uppdæling á sandi úr Sundunum. Við höfum verið að veltast með hvað eigi að gera við þessa 200 þús umframrúmmtera af efni. Vegagerðin telur sig geta notað efnið í Pollgötuna. Það þarf að verja hana gegn sjógangi, gera göngu- og hjólastíg og auka aðgengi að Pollinum sjálfum. Það eru útrásir sem liggja í Pollinn og við höfum heyrt áhyggjuraddir að lagnirnar muni fyllast af sandi við þessa aðgerð. Þetta var að sjálfsögðu rætt í bæjarráði og okkur er sagt að þetta muni ekki hafa áhrif á útrásirnar. En allur er varinn góður.
Flesta þriðjudaga eru sviðsstjórafundir á dagskrá hjá mér. Þá fara sviðsstjórar bæjarins, fjármálastjóri, upplýsingafulltrúi og mannauðsstjóri yfir allt það helsta sem er í gangi.
Styrkhafar við úthlutun úr Þróunarsjóði Flateyrar
Í vikunni var haldið úthlutanarhóf á Flateyri vegna Þróunarsjóðs Flateyrar. Það bárust 25 góðar umsóknir þar sem í heildina var sótt um ríflega 32 miljónir af heildarkostnaði verkefna upp á 50,6 miljónir. Úthlutað var 15 miljónum til 16 fjölbreyttra verkefna sem styrkja samfélagið á stór áhrifasvæði Flateyrar.
Við Bryndís bæjarritari áttum mánaðarlegan fund okkar með Helga, formanni hverfisráðs Dýrafjarðar og Birtu blábankastjóra. Markmið þessara funda er að miðla upplýsingum og styrkja betur tengsl stjórnsýslunnar og hverfisráðsins.