Vika 6: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 6.-12. febrúar 2023.

Vikan byrjaði með fundi bæjarráðs. Þar er alltaf af nógu að taka.

Það er verið að undirbúa útboð fyrir almenningssamgöngur. Sú vinna er í fullum gangi. Það hafa komið inn þó nokkrar umsagnir og verkefnið er að reyna fá sem mesta nýtingu á þeim leiðum sem boðið er upp á og að þær henti flestum. Eitt af því sem við þurfum að finna lausn á í samstarfi við Vegargerðina er að láta tímaáætlun strætó ganga saman við tímaáætlun snjómoksturs. Það er nefnilega lítið gagn að vera með ferðir milli byggðakjarna ef ekki er búið að moka.

Við tókum líka fyrir erindi frá Arnarlaxi vegna hugmynda um byggingu bryggju við Mjólká fyrir þjónustubáta fyrirtækisins. Þetta er áhugaverð hugmynd þó það hafi verið mat bæjarráðs að ekki væri forsendur af hálfu bæjarins að fara í verkefnið.

Arna og Baldur með Andreu Gylfadóttur, Sólveigu Bessu Magnúsdóttur og Sædísi Maríu Jónatansdóttur í Fræðslumiðstöðinni.
Arna og Baldur með Andreu Gylfadóttur, Sólveigu Bessu Magnúsdóttur og Sædísi Maríu Jónatansdóttur í Fræðslumiðstöðinni.

Við Baldur mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar áttum fund með Fræðslumiðstöð Vestfjarða um samstarf og tækifæri í símenntun. Þar hittum við Sædísi sem stýrir miðstöðinni og Andreu og Sólveigu Bessu. Mjög gott og gagnlegt að hitta þær.

Það er verið að vinna viðbragðsáætlun vegna hópslysa í umdæmi Lögreglustjórans á Vestfjörðum og það var fundur með hagaðilum til að kynna þá vinnu. Ég átti líka fund með Helga, nýráðnum lögreglustjóra á Vestfjörðum og Hlyni yfirlögregluþjóni ásamt Hafdísi og Margréti sviðsstjórum bæjarins til að ræða samstarfsverkefni okkar, t.a.m. almannavarnir, samstarf vegna heimilisofbeldis og forvarnamál svo fátt eitt sé nefnt.

Verkefnastjórn Flateyrarverkefnis tók stuttan skrensfund til að fara yfir úthlutanir. Búið er að láta alla styrkþega vita og haldið verður útgáfuhóf í vikunni. Mörg flott verkefni sem eru að fá styrk.

Frá kynningu á niðurstöðum starfshóps um aukið samstarf sveitarfélaga í málefnum fatlaðra og barnaverndar.
Frá kynningu á niðurstöðum starfshóps um aukið samstarf sveitarfélaga í málefnum fatlaðra og barnaverndar.

Stjórn BsVest fundaði í vikunni og því tengt var líka fundur um Velferðaþjónustu Vestfjarða. KPMG kynnti niðurstöðu starfshópsins um aukið samstarf sveitarfélaga í málefnum fatlaðra og barnaverndarmálum fyrir sveitarstjórnarmönnum. Næst mun niðurstaða starfshópsins fara til afgreiðslu í öllum sveitarstjórnum á Vestfjörðum.

Bryndís bæjarritari og Arna bæjarstjóri við nemendagarðana á Flateyri.Bryndís bæjarritari og Arna bæjarstjóri við nemendagarðana á Flateyri.

Inni í nemendagörðunum á Flateyri
Inni í nemendagörðunum á Flateyri.

Við Bryndís bæjarritari áttum vinnudag í Skúrinni á Flateyri. Mjög flott aðstaða til að vinna. Við notuðum tækifærið og skoðuðum nýju nemendagarðana. Rífandi gangur í verkinu og húsið fullt af iðnaðarmönnum. Kristín sem situr í stjórn nemendagarðanna rölti með okkur um en stefnt er að því að húsið verði klárt í júní.

Ég átti fund með starfsmönnum Vestfjarðastofu og sveitarstjórum í fiskeldissveitarfélögum vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit fiskeldis, en skýrslan hefur verið mikið til umræðu í vikunni. Mín fyrsta hugsun er að þarna er ekkert sem kemur á óvart, og í raun margt sem sveitarfélög á Vestfjörðum hafa verið að benda á í mörg ár. Skýrslan er á dagskrá næsta fundar bæjarráðs.

Frá veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði.
Frá veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði.

Ég lokaði vikunni með því að fara á opnun Logns sem er nýr veitingastaður á Hótel Ísafirði. Búið er að endurgera alla jarðhæðina og þetta kemur ekkert smá vel út. Nafnið er sérstaklega skemmtilegt og á vel við á stað þar sem lognið á lögheimili.