Vika 51 og 52: Dagbók bæjarstjóra

Dagbók bæjarstjóra 19.-31. desember 2022.

Það er búið að rólegra yfir í vinnunni miðað við síðustu mánuði. Það er þó alltaf eitthvað í gangi. Þessi dagbók verður einhvers konar stiklað á stóru síðustu daga ársins.

Það var haldin aukafundur í bæjarstjórn milli hátíða. Það var gert til að hækka álagningarhlutfall útsvars. Útsvar Ísafjarðarbæjar árið 2023 var hækkað um 0,22% og verður því 14,74%, en það er gert með vísan til ákvæða varðandi breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk í fyrirliggjandi samkomulagi á milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 16. desember 2022. Þetta mun ekki hafa nein áhrif á íbúa þar sem tekjuskattur á einstaklinga lækkar um sama hlutfall í báðum skattþrepum. Við notuðum tækifærið að minna ríkisvaldið á að fjármagna þessa mikilvægu þjónustu við fatlað fólk að fullu til frambúðar.


Sanddælingaskipið Álfsnes í höfn á Ísafirði.

Sanddælingarskipið Álfsnes mætti í bæinn korter í áramót og hóf uppælingu. Það var við hæfi að skipið kæmi fyrir áramótin svo Muggi hafnarstjóri gæti tekið á móti því áður en hann lét að stöfum fyrir Ísafjarðarbæ núna um áramótin. Muggi hefur starfað fyrir Ísafjarðarbæ í meira en tuttugu ár og haft mikil áhrif á þróun hafnarþjónustunnar og hefur skilað frábæru starfi.


Muggi ásamt Rúnu tengdadóttur sinni og Ödda syni sínum, síðasta daginn á höfninni.


Anna Guðrún Sigurðardóttir á fjöllum.

Það urðu fleiri breytingar hjá Ísafjarðarbærinn um áramótin því Anna Sig á velferðarsviði var einnig að ljúka störfum hjá bænum eftir 13 ára starf. Anna er engri lík, vinnusemin, krafturinn og glaðværðin sem einkennir hennar fas. Ég vil nota tækifærið og þakka bæði Önnu og Mugga hjartanlega fyrir samstarfið.

Fyrir jól fundaði ég með leigufélaginu Bríet um hugsanlegt samstarf við Ísafjarðarbæ. Bríet er sjálfstætt leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), stofnað að norrænni fyrirmynd og er rekið án hagnaðarsjónamiða.

Það voru tveir fundir í stjórn Fasteigna Ísafjarðarbæjar, fyrir og eftir jól.

Það var fundur í starfshópi um velferðarþjónustu Vestfjarða. Þar erum við komin áleiðis enda eigum við að skila af okkur í janúar.

Frá aðalfundi Hvetjanda.

Aðalfundur Hvetjanda var haldinn í vikunni fyrir jól. Hvetjandi er fjárfestingarsjóður sem fjárfestir í vestfirskum fyrirtækjum. Félagið er í eigu Byggðastofnunar og nokkurra vestfirskra sveitarfélaga og fyrirtækja. Ég var endurkosin í stjórn félagsins ásamt Shiran Þórissyni fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Með okkur í stjórninni er Jón Páll bæjarstjóri í Bolungarvík sem er jafnframt stjórnarformaður og Viktoría Rán Ólafsdóttir og Guðbjörg Óskarsdóttir fyrir hönd Byggðastofnunar. Gaman að segja frá því að við erum öll fyrrum starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða nema Guðbjörg.


Frá kynningarfundi um landþróunarverkefni í Önundarfirði. Frá vinstri: Elías Guðmundsson, Steinþór Bjarni Kristjánsson og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Ég skellti mér á kynningarfund um landþróunarverkefni í Hjarðardal í Önundarfirði. Afar áhugavert verkefni þar á ferð. Þar er gert ráð fyrir 36 stórum einbýlishúsalóðum og lúxushóteli. Við erum að gera ráð fyrir að íbúum fjölgi og að það verði áfram þörf fyrir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Þetta er auðvitað geggjuð staðsetning. Þannig ég vona að þessar hugmyndir verði að veruleika.

Áramót eru ákveðin tímamót. Þá er gjarnan rifjað upp hvað bar hæst á liðnu ári, og það sem er skemmtilegra er að horfa fram á veginn með væntingar til komandi árs í farteskinu. Það gefur auðvitað augaleið hvað bar hæst á árinu fyrir mig sem bæjarstjóra, það voru úrslit sveitastjórnakosninga 14. maí sl. Síðan þá hef ég fengið að starfa í fjölbreyttu, skemmtilegu og stundum krefjandi starfsumhverfi með frábæru samstarfsfólki. Ég er viss um að árið 2023 verði Ísafjarðarbæ afar gott. Mörg framfaraverkefni í farvatninu, íbúum er að fjölga og stemmningin almment góð. Nú þarf bara innrásinni í Úkraínu að ljúka með friði.