Vika 50: Dagbók bæjarstjóra

Lilja Borg Jóhannsdóttir mætti til fundar bæjarráðs til að kynna könnun um strætisvagnakerfið í Ísaf…
Lilja Borg Jóhannsdóttir mætti til fundar bæjarráðs til að kynna könnun um strætisvagnakerfið í Ísafjarðarbæ.

Dagbók bæjarstjóra dagana 12.-18. desember 2022.

Sem fyrr byrjaði vikan á fundi bæjarráðs sem setur gjarnan tóninn fyrir verkefni vikunnar. Við fengum sérlega áhugaverða kynningu í bæjarráði þegar Lilja Borg, nemi í Menntaskólanum á Ísafirði, kynnti könnun sem hún framkvæmdi ásamt öðrum nemum um strætisvagnakerfið í Ísafjarðarbæ. Fjölmargir gagnlegir punktar komu fram í hennar kynningu og ljóst að það er margt sem hægt er að gera betur. Samningur um almenningssamgöngur rennur út á næsta ári og þarf bærinn að bjóða verkið aftur út og munu þessar upplýsingar nýtast okkur vel í þeirri vinnu.

Úrgangsmálin er enn ofarlega á dagskrá og verða allt næsta ár. Í vikunni var samþykkt ný samþykkt um meðhöndlun úrgangs og ný gjaldskrá, allt vegna nýju laganna sem taka gildi um áramótin. Í lögunum kemur m.a. fram að innheimta skal sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi svo hægt að sé að innheimta á réttan hátt. Í stórum dráttum þýðir þetta að sérbýli eru að fara borga meira en fjölbýli minna. Við erum meðvituð um að við þurfum að kynna þetta sérstaklega vel fyrir íbúum og hefur heimasíða bæjarins verið nýtt til þessa en þar er reynt að svara flestum spurningum. Við munum svo nýta fleiri leiðir til kynningar strax eftir áramótin.

Bæjarstjórn ákvað á fundi sínum á fimmtudaginn að ganga til samninga við Fasteignafélag Þingeyrar vegna Gramsverslunar. Nú bindum við vonir við að húsið verði endurbyggt og fái hlutverk sem sæmir þessu fallega húsi. Á sama fundi var líka ákveðið að framlengja samning Ísafjarðarbæjar við Kómedíuleikhúsið. Elfar Logi og Marsibil eiga þekkir skilið fyrir seigluna, hugmyndaauðgina og framlag sitt til menningarmála á Vestfjörðum (og landinu öllu).


Frá tendrun jólaljósa á Þingeyri.

Við Bryndís bæjarritari renndum yfir á Þingeyri og áttum fund með Agnesi verkefnisstjóra Allra vatna til Dýrafjarðar, Birtu Blábankastjóra og Helga formanni hverfisráðsins. Þetta var síðasti fundur Agnesar undir þessum formerkjum en á áramótum lýkur Öllum vötnum til Dýrafjarðar formlega en góðu fréttirnar eru þær að Agnes er ekki að fara langt heldur mun færa sig alfarið til Vestfjarðastofu, og mun halda áfram að sinna frumkvöðlum og fyrirtækjum.

Ég skaust í borgina og sat stjórnarfund í Lánasjóði sveitarfélaga.

Vinnustofa um Velferðarþjónustu Vestfjarða var haldinn í vikunni með starfsmönnum félagsþjónustunnar víðsvegar um Vestfirði. Vinnustofan var haldinn á Teams og gekk svona glimrandi vel en það voru starfsmenn KPMG sem stýrðu vinnunni. Niðurstöðu er svo að vænta í janúar.

Stjórn Byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks (BsVest) fundaði á miðvikudaginn með verkefnahópi BsVest sem er skipaður félagsmálastjórum á Vestfjörðum, sá fundur var líka haldinn á Teams. Svo bárust þær fréttir í lok vikunnar að ríkisstjórnin hyggst setja aukið fjármagn í málaflokkinn. Við eigum eftir að sjá hvað það þýðir fyrir okkur en markmiðið er að framlögin dugi fyrir þjónustunni en það er ekki raunin eins og staðan er núna.

Ég skellti mér í morgunkaffi á höfninni. Það er löng hefð fyrir sameignlegu kaffi hafnarskrifstofunnar og Byggðasafnsins á föstudagsmorgun. Þar eru rædd helstu verkefni og málefni líðandi stundar. Jóna Símonía forstöðumaður Byggðasafnsins dekrar við hafnarstarfsmenn og kemur með heimabakað á hverjum föstudegi!


Skjáskot af aðventufundi Sambands íslenskra sveitarfélaga um hringrásarhagkerfið.

Ég hlustaði á aðventufund Sambands íslenskra sveitarfélaga um hringrásarhagkerfið á Teams. Edda María fjármálastjóri var með erindi á fundinum sem nefnist Fjármálastjóri telur tunnur. Það verður að segjast að okkar frábæri fjármálstjóri brennur fyrir þessu nýja verkefni og deildi reynslu okkur með fundargestum. Það var líka áhugavert að heyra frá öðrum sveitarfélögum. Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir áhugasama.

Í byrjun desember var ég skipuð í starfshóp sem á að vinna aðgerðir sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og eiga að efla samfélagið á Vestfjörðum. Okkur er gert að fylgja eftir tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum sem skilaði af sér tillögum í apríl 2022, jarðhitaleit, aukin orkuöflun, þjóðgarður á Vestfjörðum, efling hringrásahagkerfins og grænni atvinnuuppbyggingu. Í hópnum eru einnig þeir Einar Kristinn Guðfinnsson, sem er formaður starfshópsins og Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð. Við áttum okkar fyrsta fund í lok vikunnar og skipulögðum vinnuna sem er framundan en við eigum að skila af okkur 1. maí 2023. Við fengum góða kynningu frá Orkubúi Vestfjarða þar sem var farið yfir stöðuna og þá kosti sem við höfum í orkuöflun og orkuöryggi. Við erum sérstaklerga spennt fyrir jarðhitaleitinni en bora á fyrir heitu vatni bæði í Tungudal og á Patreksfirði næsta sumar. Það kom fram í kynningu OV að virkjanir á Vestfjörðum eru að framleiða ca 21 MW en þörfin í dag er 44 MW. Einhvern veginn verðum við að brúa þetta bil og eiga fyrir orkuskiptunum og nýjum atvinnutækifærum (og fara betur með þá orku sem við höfum). Við hittum líka Steina og Tinnu í Bláma en þau ætla vinna með okkur að ákveðnum verkefnum.

Ég geri ráð fyrir að næstu dagar verði rólegri en síðustu vikurnar. Við erum að fá alvöru vetrarveður með talsverðri ofankomu, þá er um gera að taka því rólega og njóta aðventunnar.