Vika 49: Dagbók bæjarstjóra

Fyrstu drög að hönnun leiksvæðis á „Gamla gæsló“ á sjúkrahústúninu á Ísafirði.
Fyrstu drög að hönnun leiksvæðis á „Gamla gæsló“ á sjúkrahústúninu á Ísafirði.

Dagbók bæjarstjóra 5.-11. desember

Vikan hefur verið nokkuð róleg miðað við síðustu vikurnar. Það er þó alltaf nóg af fundarliðum í bæjarráði. Við fengum kynningu á hönnun á „Gamla gæsló“ en þar er fyrirhugað að útbúa leiksvæði fyrir börn og unglinga næsta sumar. Þarna er verið að horfa til þess að höfða til aðeins eldri barna en á öðrum leiksvæðum. Margar flottar pælingar þarna í gangi sem við ætlum að vinna með áfram.

Við erum í óða önn að undirbúa okkur fyrir lagabreytinguna sem tekur gildi 1. janúar nk. varðandi meðhöndlun úrgangs. Liður í því er að gera nýja samþykkt og var hún til umræðu í bæjarráði. Eins og áður hefur verið greint frá þá erum við tilraunasveitarfélag í þessum efnum og erum að taka hraðferðina. Mjög margir íbúar eru áhugasamir um verkefnið enda höfum við í þessu sveitarfélagi verið um árabil dugleg að flokka og svona. Nýju breytingarnar gera ráð fyrir allavega fjórum flokkum og það erum við nú þegar að gera. Breytingar snúa að mestu að íbúar geta haft val um mismunandi tunnustærðir og fjölda með það að markmiðið að lækka sorpgjöldin. Núna erum við í innleiðingunni og munum kynna breytingarnar vel fyrir íbúum á næstu vikum. Þessu tengt verður Nanný Arna, bæjarfulltrúi og formaður umhverfisnefndar í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 þann 12. desember kl. 13 að ræða þessi mál.

Starfshópur um velferðarþjónustu Vestfjarða fundaði í vikunni með KPMG til að undirbúa vinnufund sem haldinn verður í næstu viku með starfsmönnum félagsþjónustusvæðanna. Þar ætlum við kortleggja stöðuna og skoða tækifærin til frekara samstarfs og reyna einfalda kerfin okkar.

Stjórn Byggðasamlags Vestfjarða fundaði í vikunni. Þar ber helst að framkvæmdastjórinn okkar hefur látið af störfum að eigin ósk. Sif þakka ég kærlega fyrir samstarfið og vona að eldmóður hennar og kraftur finni sér góðan farveg.


Veitingar skjalastjórans Hjördísar voru ekki af verri endanum.

Rafræni tiltektardagurinn. Já slíkur dagur er til og var haldinn hátíðlegur á fimmtudaginn á bæjarskrifstofunni. Skjala, flokka, prenta, loka og eyða eru lykilhugtök í þessari vinnu. Hjördís skjalastjóri hvatti okkur áfram með ráðum og dáðum, og ekki síst með því að verðlauna okkur með jólaveitingum.


Bæjarstjóri með nemum úr Háskólasetri Vestfjarða.

Nemendur í sjávarbyggðafræði frá Háskólsetri Vestfjarða komu í heimsókn á bæjarskrifstofuna. Þar ræddum við saman um skipulagsmál, ákvarðanatöku, pólitík og fleira. Þau koma víðsvegar frá heiminum og áhugavert að heyra þeirra sjónarmið.

Við Axel og Bryndís áttum fund með Sædísi Ólöfu formanni hverfisráðsins á Suðureyri. Skipulags- og öryggismál við skólann komu þar sérstaklega við sögu. Það er ljóst að við þurfum að fara í úrbætur til að tryggja öryggi gangandi vegfaranda.

Annars er mikið að gera í samfélaginu og þá er nóg hjá okkur í stjórnsýslunni.