Vika 48: Dagbók bæjarstjóra
Dagbók bæjarstjóra í viku 48, 28. nóvember-4. desember.
Ég flutti stutt ávarp á málþingi stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar þar sem kynnt var fræðadvöl fyrir vísinda- og fræðafólk alls staðar úr heiminum í Grímshúsi sem er staðsett við Túngötu 3 á Ísafirði. Fræðadvölin verður rekin af Hringborði Norðurslóða (Arctic Circle) í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og fleiri. Virkilega spennandi verkefni sem verður gaman sjá hvernig framvindur. Þetta virkar þannig að fólk sækir um að dvelja hér við rannsóknir, fær aðstöðu og þak yfir höfuðið á meðan á dvölinni stendur. Ég gæti vel trúað Ísafjörður eigi eftir verða vinsæll viðkomustaður vísinda og fræðafólks. Hringborð norðurslóðanna er afar stór vettvangur með tengingar út um allan heim.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði málþing stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar.
Með Ólafi Ragnari var öflugur hópur fólks sem kom að málstofunni. Katrín Jakobs forsætisráðherra ávarpaði málþingið, þrír rektorar stærstu háskólanna voru mættir og orkumálaráðherra stýrði málþinginu. Það er ekki amalegt að hafa svona fólk með okkur í liði.
Með málþinginu komu fjölmiðlar vestur, bæði RÚV og stöð 2. Ég veitti fimm sjónvarpsviðtöl um ýmis mál á einum sólarhring.
Sigríður Júlía, Nanný Arna, Bryndís Ósk og Steinunn Guðný voru á búning á 503. fundi bæjarstjórnar þann 1. desember.
Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi á sjálfan fullveldisdaginn og konur klæddu sig upp í tilefni dagsins. Gerð fjárhagsáætlunar er viðamesta verkefnið hvers hausts og ákveðin tímamót þegar hún er samþykkt. Stóru fréttirnar eru þær að það er mikill viðsnúningur á rekstri Ísafjarðarbæjar árið 2023 ef áætlunin gengur eftir. Rekstrarafgangur upp á 206 m.kr.! Við settum okkur fjárhagsleg markmið með langtímasýn til að tryggja sjálfbærni rekstursins og til að búa sveitarfélagið undir þann vöxt sem fram undan er. Það er óvissa í umhverfinu og það má ekki mikið út af bera, sem gerir kröfur á okkur að standast áætlunina.
Bæjarstjórinn á örfundi með Karlahreysti.
Tók „örfund“ með Karlahreysti þar sem við fórum yfir niðurstöðuna. Ég get ekki heyrt annað en menn hafi verið sáttir.
Það var stjórnarfundur Hvetjanda í vikunni sem er fjárfestingarsjóður sem fjárfestir í vestfiskum fyrirtækjum. Ég sit þar í stjórn f.h. Ísafjarðarbæjar en Bolungarvík og Byggðastofnun eiga líka fulltrúa í stjórninni.
Verkefnisstjórnin á Flateyri fundaði fyrir helgina. Hefðbundin fundur þar sem farið var yfir stöðu verkefna. Svo verður auglýst eftir umsóknum á næstum vikum.
Á jólaopnun Byggðasafnsins.
Byggðasafnið hefur verið með jólaopnun á aðventunni. Hvet fólk til að kíkja á safnið og skoða jólasýninguna. Það kostar ekkert inn í desember og hægt að kaupa heitt súkkulaði og smákökur. Mæli með að eiga huggulega stund á safninu.