Vika 46: Dagbók bæjarstjóra

Í heimsókn á Byggðasafni Vestfjarða.
Í heimsókn á Byggðasafni Vestfjarða.

Dagbók bæjarstjóra í viku 46, 14.-20. nóvember.

Ég hef gaman að því að heimsækja stofnanir sveitarfélagsins.

Við Bryndís bæjarritari kíktum á Byggðasafnið (sem við rekum með Bolungarvík og Súðavík) og upplýsingamiðstöð ferðamála og hittum þau Jónu Símoníu, Finneyju og Heimi fyrir. Ekki er langt síðan að upplýsingamiðstöðin var færð úr Edinborgarhúsinu og á Byggðsafnið, og nú á að færa upplýsingamiðstöðina undir hafnarskrifstofu. Starfsmenn safnsins eru á fullu núna að gera klárt fyrir jólavertíðina og með opnun jólasýningar, líkt og í fyrra. Talsverð samvinna er á milli upplýsingarmiðstöðvar og safnsins, og mun það hafa sín áhrif að starfsmaður upplýsingamiðstöðvar færist á hafnarkontórinn að einhverju leyti.


Frétt Bæjarins besta um opnun upplýsingamiðstöðvarinnar frá því í júní 1997.

Starfsemi upplýsingmiðstöðvarinnar hefur breyst mikið frá því að ég vann þar tvö sumur seint á síðustu öld. Segja má að fyrsta vikan í júlí hafi þá markað upphaf ferðamannastraumsins sem var nánast allur um og eftir verslunarmannahelgi. Þar hófst samstarf mitt og Sirrýjar sem er framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, og erum við enn að vinna saman að hagsmunum Vestfirðinga.

Við Bryndís og Axel fundum mánaðarlega með Helga formanni hverfisráðsins á Þingeyri og Agnesi verkefnisstjóra Allra vatna til Dýrafjarðar. Þar förum við yfir helstu mál er tengjast Dýrafirði í stjórnsýslunni og hvað er framundan. Oft eru það skipulags- og framkvæmdamálin sem eru fyrirferðamest og það var engin undantekning þessa vikuna.


Sigríður Júlía, Runólfur og Sunna kynntu verkefni sín á Flateyri.

Það var haldinn íbúafundur á Flateyri í vikunni til þess að meta hvernig gengur verkefnið hefur gengið. Við fengum flottar kynnar á þremur verkefnum sem hafa fengið styrk úr Flateyrarsjóðnum. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir kynnti verkefnið sitt um uppbyggingu spunaverksmiðju í Önundarfirði, Runólfur Ágústsson kynnti verkefni um baðströnd í Holti og Sunna Reynisdóttir fór yfir uppbygginguna á skautasvellinu á Flateyri. Allt eru þetta verkefni sem eiga eftir að setja mark sitt á samfélagið. Auk þessara verkefna hafa fjölmörg önnur verkefni fengið styrk. Heilt yfir hefur Flateyrarverkefnið gengið vel. Verkefninu á að ljúka næsta vor en bæjarráð hefur þegar sótt um framlengingu um eitt ár m.a. vegna þess að ekki var hægt að nýta verkefnið til fulls allan tímann vegna Covid-19.

Ég var í samskiptum við Orkubú Vestfjarða vegna tjarnarinnar á Suðureyri. Olíuslys varð fyrr á árinu þegar olía úr tanki Orkubúsins lak í tjörnina og í höfnina. Íbúar hafa haft áhyggjur af því að olían hafi ekki verið hreinsuð nægjanlega vel og hafi haft áhrif á lífríkið. Orkubúið fór á staðinn til að taka út aðstæður og telja að ekki sé um olíu að ræða. Bent er á að hágróður sé mikill í tjörninni sem bendi til þess að lífríkið hafi ekki skaðast Ég held að það sé full ástæða til að fylgjast með tjörninni.

Bæjarstjórn hélt vinnufund vegna fjárhagsáætlunar í vikunni. Við erum við enn að yfirfara reksturinn og mest við að leita að peningum. Síðari umræða um fjárhagsáætlun fer fram 1. des nk.

Guðmundur Ingi félags- og vinnumarkaðsráðherra hafði samband og óskaði eftir því að hitta bæjarstjórn til að fara yfir fyrirhugaðar breytingar á Fjölmenningarsetri og Vinnumálastofnun, og gerðum við það samhliða vinnufundinum. Til stendur að sameina þessar tvær stofnanir. Fjölmenningarsetur er eina ríkisstofnunin sem er með höfðuðstöðvar sínar á Ísafirði þess vegna eru blendnar tilfinningar þegar leggja á hana inn í aðra stofnun. Það eru ekki nema tveir starfsmenn Fjölmenningarseturs með aðsetur á Ísafirði og lítið vit í því að vera með svo litla stofnun. Góðu fréttirnar eru þær að gert er ráð fyrir að stöðugildum á Ísafirði verði fjölgað í sameinaðri stofnun, með tilkomu nýrra verkefna. Auk þess sem fastráðnu starfsfólki beggja stofnana verði boðin vinna hjá sameinaðri stofnun.

Vinnuvika bæjarstjóra var annars stutt því ég var í fríi fimmtudag og föstudag.