Vika 44: Dagbók bæjarstjóra
Dagbók bæjarstjóra dagana 30. október-6. nóvember.
Vikurnar fjúka áfram og alltaf nóg að gera. Þessi vika var undirlögð af verkefnum tengd fjárhagsáætlun sem er stærsta verkefni bæjarráðs á hverju hausti. Mikil vinna liggur að baki hverri áætlun og alltaf ákveðin tímamót þegar hún er lögð fram hverju sinni, og enginn undantekning í ár þegar hún var lögð fram í vikunni. Stóra verkefnið er að gera rekstur Ísafjarðarbæjar sjálfbæran. Þetta er töluverð áskorun en vel hægt ef vel er haldið á spilunum.
Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2023.
Ég nefndi það í minni ræðu að við hefðum séð það svartara og við gætum verið bjartsýn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar. Það er blússandi gangur í atvinnulífinu sem hefur bein jákvæð áhrif á reksturinn. Fleiri íbúar þýða auðvitað auknar útsvarstekjur. Við erum að horfa fram á miklar fjárfestingar í tengslum við fiskeldi og mikil þörf á fjárfestingu í ferðaþjónustu.
Við fengum þær fréttir í vikunni að stærsta eldisfyrirtæki í heimi hefði verið að kaupa meirihlutann í Arctic fish og auðvitað ánægjulegt þegar fyrirtæki sjá tækifæri að fjárfesta á Vestfjörðum. Einnig erum að við horfa á ævintýralegan vöxt hjá Kerecis og ótrúlega gaman að sjá fyrirtækið vaxa og dafna.
Staða bæjarsjóðs væri allt önnur ef við fengum auðlindagjöld af fiskeldinu inn í okkar rekstur og ef málaflokkur fatlaðs fólks væri ekki vanfjármagnaður, en þar erum við að horfa upp á 125 m.kr. tap á næsta ári. Þess til viðbótar er Ísafjarðarbær að borga 43 m.kr. með Eyri. Þrátt fyrir þetta er gert ráð 135 m.kr. rekstrarafgangi af samstæðu Ísafjarðarbæjar árið 2023 en 32 m.kr. tap á A-hluta bæjarsjóðs.
Við munum rýna reksturinn enn betur á milli umræðna en gert er ráð fyrir að fjárhagsáætlun verði samþykkt 1. desember nk.
Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa verið að skoða leiðir til að auka samstarf í velferðarmálum. Við Margrét sviðsstjóri velferðarsviðs áttum fund með Braga sveitastjóra í Súðavík til að ræða samstarf þessara tveggja sveitarfélaga í velferðarmálum. Ísafjarðarbær sinnir velferðarmálum að miklu leyti í Súðavíkurhreppi skv. samningi en við viljum samþætta þjónustuna enn frekar, og veita íbúum góða og faglega þjónustu.
Húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar 2023.
Húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 var samþykkt á bæjarstjórn á fimmtudaginn. Húsnæðisáætlun er gagnlegt stjórntæki og er ætlað að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í sveitarfélaginu. Við erum að gera ráð fyrir að íbúum fjölgi og við þurfum að hafa eitthvað plan, hvar ætlum við að koma öllu fólkinu fyrir ef fyrirætlanir fyrirtækja á svæðinu ná fram að ganga? Hvernig húsnæði mun vanta, hvar og hversu mikið. Húsnæðisáætlunin á að svara því.
Bæjarstjórn fékk hvatningu frá félagi eldri borgara um staðsetningu nýrrar viðbyggingar við Eyri. Þau óska eftir því að skoðað verði að setja nýju bygginguna við Hafnarstræti þar sem núverandi bílastæði eru. Í upphaflegu teikningum var gert ráð fyrir byggingunni á þessum stað. Við munum taka það upp við heilbrigðisráðuneytið að fá að kanna þennan kost líka.
Nýtt deiliskipulag á Þingeyri.
Bæjarstjórn samþykkti að auglýsa nýtt deiliskipulag á Þingeyri fyrir Hlíðargötu á Þingeyri. Þarna eru fjölmargar lóðir fyrir einbýlishús, raðhús og parhús. Nú er heldur betur tækifæri til að byggja.
Tinna, Sigurður, Steini, Kjartan og Arna.
Við Gylfi formaður bæjarráðs áttum fund með Steina og Tinnu frá Bláma, Sigurði og Haraldi frá Landsvirkjun og Kjartani frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneyti, til að ræða verkefni til að ýta undir orkuskipti sem tengjast sveitarfélaginu. Blámi er frábær vettvangur til að draga saman aðila til að vinna saman að nýsköpun og verkefnum tengdum orkuskiptum. Þau eru fjölmörg tækifærin og gaman að heyra hvað þau í Bláma eru atorkusöm og lausnamiðuð.
Nýju bekkirnir í Hnífsdal prófaðir.
Ég fór og tók út framkvæmdir í Hnífsdal en framtakssamir íbúar brúuðu ána og gerðu fína bekki. Nú er kominn þessi fíni hreyfihringur í Dalnum. Stígagerð er ein besta fjárfesting í til hreyfingar. Svona fólk er svo mikill samfélagsauður og við erum sem betur fer rík í þeim skilningi.