Vika 43: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 23.-29. október 2023.
Annasöm vika að baki sem hófst í Reykjavík. Ég var boðuð á fund hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að fylgja eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um stefnumótum stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga.
Á dagskrá bæjarráðs voru fjölbreytt mál á dagskrá, þar á meðal taka tilboðs vegna jarð- og lagnavinnu á aðalvellinum á Torfnesi. Vinna við æfingavöllinn gengur vel og veðrið er heldur betur að hjálpa okkur. Það má helst ekki snjóa neitt á næstunni svo að planið gangi upp.
Það var einnig lagt fram bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga þar bent er á að Ísafjarðarbær uppfyllir ekki tvö lágmarksviðmið nefndarinnar um fjármál sveitarfélaga. Því er til svara að við erum á réttri leið og samkvæmt fjárhagsmarkmiðum bæjarins náum við þeim árið 2026 (en mögulega fyrr). Þessi lágmarksviðmið eru ekki lögbundin en engu að síður mjög gott að stefna að þeim.
Ég ásamt fjölmörgum konum lagði niður störf á þriðjudaginn til að sýna samstöðu í jafnréttisbaráttunni. Fullu jafnrétti er ekki náð, kynbundinn launamunur er enn til staðar og útrýma þarf kynbundnu ofbeldi. Kvennasamstaða er eitt það dásamlegasta sem til er. Á Ísafirði voru konur kallaðar saman á Silfurtorgi og gengin var kröfuganga að Edinborgarhúsinu þar sem fjölmennur fundur var haldinn með ræðum og söng. Janina Magdalena flutti flotta ræða sem Agnieszka Tyka þýddi yfir á pólsku. Finney Rakel flutti einnig þrusuræðu. Þvílíkur dagur að baki sem verður lengi í minnum hafður.
Í vikunni opnuðu Píeta-samtökin skjól í Vesturafli á Ísafirði. Þar verður boðið upp á viðtalstíma fyrir þá sem þurfa á að halda. Samtökin veita fólki með sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaða og aðstandendum þeirra gjaldfría aðstoð. Við þetta tækifæri veittu Píeta samtökin Veigu Grétarsdóttur og Kiwanisklúbbnum þakkarviðurkenningu fyrir framlag þeirra til samtakanna.
Verkefnisstjórn um rammaáætlun var með kynningarfund sem var líka varpað á netið og upptaka gerð aðgengileg sem er alveg til fyrirmyndar. Það er verið að skoða þrjá virkjanakosti á Vestfjörðum í vatnsafli; Skúfnavatnavirkjun, Glámuvirkjun sem rynni í Ísafjarðardjúp og Glámuvirkjun sem færi í Vattardal á Barðaströnd (annað útilokar hitt), og einnig er verið að skoða einn vindorkukost í Garpsdal í Reykhólasveit. Þess má geta að Hvalárvirkjun, Austurgilsvirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun eru nú þegar í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Á fundinum voru líka kynntar niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar HÍ um viðhorf til virkjana.
Sölvi Sólbergsson frá Orkubúinu mætti til fundar hjá skipulags- og mannvirkjanefnd til að fá leyfi fyrir fjórðu rannsóknarborholunni í Tungudal. Hann leit inn til mín í leiðinni. Ég vona að ég fari ekki of frjálslega með en tvær af holunum sem boraðar voru í sumar gefa vísbendingar um að 60°C heitt vatn geti fundist í fjórðu holunni, með því að bora dýpra, með öflugri bor.
Menningar- og listahátíðin Veturnætur hófst í vikunni. Ég fékk þann heiður opna hátíðina þegar ljósainnsetning Ruth McDermott Vetrarljós var afhjúpuð. Ruth vann verkið með nemendum leik- og grunnskólum á Flateyri, Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri sem teiknuðu myndir af vetrarskrímslum og nemendur MÍ og Lýðskólans á Flateyri sem hönnuðu ljós.
Samtök atvinnulífsins voru með opin fund. Þar var farið yfir hagstærðir, verðbólgu, vexti og komandi kjarasamningsviðræður.
Annska Arndal, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Björg Bábó á opnu húsi í Netagerðinni.
Netagerðin opnaði dyr sínar fyrir gestum á laugardaginn. Sjón er sögu ríkari. Netagerðin samanstendur af fjölmörgum skapandi vinnustofum, þar má finna fjölbreytta starfsemi af ýmsu tagi. Mynd-, tré- og leirlist, allskyns prjóna-, textíl- og leðurhönnun, arkitektúr, skartgripahönnun og blómaverkstæði. Þvílík umbreyting.
Nanný með Þórdísi Sif, bæjarstjóra Vesturbyggðar.
Við Nanný rúlluðum yfir á Patreksfjörð til að fylgjast þegar úrslit voru kunngerð um sameiningu sveitarfélaganna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Við vorum ekki í embættiserindum en þó nokkrir töldu að við gætum lært eitthvað af Suðurfjörðunum, ég tek undir það. Það var gott að sjá hvað úrslitin voru afgerandi. Ég er sannfærð um að þetta er mikið gæfuspor fyrir íbúana.