Vika 43: Dagbók bæjarstjóra

Arna Lára ásamt fulltrúum Byggðastofnunar og Lánasjóðs sveitarfélaga.
Arna Lára ásamt fulltrúum Byggðastofnunar og Lánasjóðs sveitarfélaga.

Dagbók bæjarstjóra dagana 24.-30. október 2022.

Þessi vika einkenndist af miklum akstri. Slíkur tími nýtist oft ágætlega til að tala í símann og funda, en fjarskiptasambandið (á Vestfjörðum og víðar) setur oft stórt strik í reikninginn. Ég fór á Laugabakka í Miðfirði með stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga til fundar með stjórn Byggðastofnunar. Þar voru þessar tvær stofnanir að kynna starfsemi sína fyrir hvor annarri. Mjög áhugavert. Það er líka gaman að því að Magnús B. Jónsson stjórnarformaður Byggðastofnunar og fyrrum sveitarstjóri á Skagaströnd var lengi stjórnarformaður Lánasjóðsins.

Bæjarráð samþykkti í vikunni að taka þátt í hraðlinum Borgað þegar hent er sem gengur út á að innleiða nýtt innheimtufyrirkomulag fyrir meðhöndlun úrgangs. Okkur ber lögum samkvæmt að innleiða nýtt kerfi árið 2023 en í þessu verkefni fáum við tækifæri til að vera tilraunasveitarfélag við innleiðinguna og fáum alla þá aðstoð sem við þurfum. BÞHE hraðallinn er samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar auk Ísafjarðarbæjar.


Frétt Morgunblaðsins um heimsókn Uffe Elleman-Jensen, af timarit.is.

Við Bryndís bæjarritari hittum fulltrúa frá Utanríkisráðuneytinu til að undirbúa fyrirhugaðan fund utanríkisráðherra Norðurlandanna sem gert er ráð fyrir að verði haldinn á Ísafirði næsta sumar. Það fylgir því þó nokkur skipulagning þegar slíkir fundir eru haldnir enda mikilvægt fólk þarna á ferð sem þarf talsverða öryggisgæslu. Samskonar fundur var haldinn á Ísafirði 1989 og við það tilefni lenti erlend þota í fyrsta skipti á Ísafjarðarflugvelli og var hún með Uffe Elleman-Jensen um borð, fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur.

Við Gylfi, formaður bæjarráðs, áttum fund með félagi eldri borga og Kubbi íþróttafélagi eldri borgara vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Eyri og afdrifum púttvallararins ef það fer svo að húsið verði reist sunnan megin við núverandi hús. Það er ekki komin niðurstaða hvar á lóðinni stækkunin verður en það er gott að fá sjónarmið eldri borgara fram og geta miðlað upplýsingum um ferlið framundan.

Ég sat fyrsta fund starfshóp um aukið samstarf í velferðarþjónustu á Vestfjörðum í fjarfundi. Það eru að verða talsverðar breytingar í málaflokknum um áramótin þegar frumvarpið um farsæld barna tekur gildi sem kallar á aukið samstarf, en það var samþykkt á fjórðungsþingi að skoða líka í þessu samhengi málefni fatlaðs fólk og móttöku flóttamanna.


Bæjarstjórar hittast á Dynjandisheiði.

Það er góð hefð hjá Vestfjarðastofu að funda mánaðarlega með sveitarstjórum á Vestfjörðum, en það er gert einu sinni mánuði. Þetta er mjög góður vettvangur til að fara yfir verkefni líðandi stundar og það sem er framundan. Við funduðum á Teams í vikunni. Ég náði reyndar að hitta Þórdísi bæjarstjóra í Vesturbyggð á örfundi á Dynjandisheiði og svo tók ég kaffi með Þorgeiri sveitarstjóra í Strandabyggð á heimleið minni frá Laugabakka. Gott að geta leitað til þeirra.

Fulltrúar GÍ, Berglind Árnadóttir, Harpa Henrysdóttir og Katrín Sif Kristbjörnsdóttir ásamt Finney Rakel, formanni fræðslunefndar.

Kristbjörg Sunna Reynisdóttir, skólastjóri Grunnskóla Önundarfjarðar, Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir, kennari, og Sigríður Anna Emilsdóttir, leikskólastjóri Grænagarðs. 

Hvatningarverðlaun fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar voru veitt í vikunni. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf. Mér bauðst að fara með Finney Rakel formanni fræðslunefndar og þeim Hafdís og Gunnu starfsmönnum skóla- og tómstundaskrifstofu að veita verðlaunin en það voru tvö verkefni sem fengu verðlaun í ár. Það var annars vegar Brú milli skólastiga sem er samstarfsverkefni Grunnskólans í Önundarfirði og leikskólans Grænagarðs þar sem elstu nemendur leikskólans koma í grunnskólann tvisvar í viku til að vinna með yngstu nemendunum þar. Hins vegar var það Grunnskólinn á Ísafirði sem fékk verðlaun fyrir útistærðfræði á unglingastigi sem nýtir útikennslu til að nálgast stærðfræði í daglegu lífi. Frábær verkefni.


Ný stjórn Samfylkingarinnar.

Landsfundur Samfylkingarinnar fór fram föstudag og laugardag. Ég brunaði suður á bíl eftir að Icelandair aflýsti fluginu mínu vegna veðurs en það var ekkert að veðri eins glöggir íbúar áttuðu sig á. Ég var alveg fjúkandi ill… en ég kann ekki við að láta ljúga að mér. Svo var annað flug sett á þegar ég var komin hálfa leið suður. Ég varð að komast suður enda í framboði til ritara Samfylkingarinnar. Landsfundurinn fór vel fram, líflegt málefnastarf og ný forysta kosin. Markmiðið með mínu framboði var að breikka ásýnd flokksins og fá inn sterka landsbyggðartengingu inn í stjórnina. Það var góður hljómgrunur fyrir því og ég náði kjöri. Ég er mjög spennt að vinna með nýju forystunni og halda á lofti hagmunum landsbyggðarinnar. Kristrún formaður Samfylkingarinnar kemur inn með ferska vinda, vill einfalda málflutninginn, opna flokkinn og eiga samtal við landsmenn á jafnréttisgrunni. Margir hafa velt fyrir sér hvaða áhrif þetta hafi á störf mín sem bæjarstjóri, en þetta er bara eins og hefðbundin stjórn í félagasamtökum sem fundar reglulega og tekur ákvarðanir. Ég myndi auðvitað ekki bjóða mig fram ef ég teldi það hafa neikvæð áhrif á störf mín sem bæjarstjóri. Mér finnst reyndar áhugavert hversu margir hafa áhyggjur af þessu. Ég held reyndar þvert á móti að þetta geti styrkt mig sem bæjarstjóra.