Vika 42: Dagbók bæjarstjóra 2024

Nokkrir af fulltrúum Ísafjarðarbæjar á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í Bjarnarfirði.
Nokkrir af fulltrúum Ísafjarðarbæjar á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í Bjarnarfirði.

Dagbók bæjarstjóra 14.-20. október 2024.

Þessar vikurnar fer mikil orka í gerð fjárhagsáætlunar sem lögð verður fram 31. október. Bæjarstjórn ákvað að halda áfram að lækka álagningarhlutföll fasteignagjalda, og var samþykkt að færa þau úr 0,54% í 0,52% fyrir árið 2025. Varfærið skref en sýnir vilja bæjarstjórnar að lækka álögur á bæjarbúa.
Bæjarstjórn ákvað líka í vikunni að taka upp deiliskipulagið á Tunguskeiði með það að markmiði að fjölga íbúðalóðum. Heitavatnsfundurinn í Tungudal setti íbúðalóðir þar sem voru í skipulagi í óvissu. Það þarf að bora meira í Tungudal og það er ekki komið alveg á hreint hvaða lóðir verða þar undir, og nauðsynlegt er að hafa fleiri lóðir til taks. Við vonumst til þess að þegar vextir fara að lækka þá verði mikil eftirspurn eftir lóðum, og gaman er að segja frá því að íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um 210 sem af er ári.

Hafnarstræti á Þingeyri, uppgrafið vegna framkvæmda.
Frá Hafnarstræti á Þingeyri.

Ég átti góðan fund með Guðrúnu, formanni hverfisráðsins á Þingeyri, þar sem við fórum yfir ýmis mál tengd því. Ég smellti mynd af einni stórri framkvæmd sem nú er í gangi í Hafnarstrætinu. Þar er verið gera klárt fyrir nýja fráveitulögn og brunna, auk hreinsistöðvarinnar.

Ingibjörg Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands var á Ísafirði við lok á sýningunni Framtíðarfortíð sem var haldinn í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins. Sýningin var samstarfsverkefni Listasafn Ísafjarðar og Listasafns Íslands. Ég og fulltrúar úr menningarmálanefnd, ásamt starfsfólki Safnahússins áttum gott spjall við Ingibjörgu. Það var svo gaman að heyra hana fara fögrum orðum yfir faglegt starf Listasafns Ísafjarðar og við getum verið svo stolt af starfinu sem þar fer fram. Það er líka verið að framkvæma heilan helling í Safnahúsinu og gera allt fínt fyrir 100 ára afmælis hússins á næsta ári.

Ég átti mjög góðan fund með kennurum Grunnskólans á Ísafirði sem kom til vegna orða Einars borgarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hann hefur nú beðist afsökunar á. Þar var óskað eftir afstöðu minni til þessara orða og það var gott að geta sagt í eigin í persónu að ég tek ekki undir þau orð. Við ræddum einnig ýmis mál sem liggja þungt á stéttinni og þá kröfu kennara um jöfnun launa. Ég bind miklar vonir við að takist að semja sem fyrst og að ekki komi til verkfalla. Boðað hefur verið til verkfalls í Tónlistarskóla Ísafjarðar sem hefst að óbreyttu 29. október næstkomandi.

Í vikunni var málþing um öldungaráð sem hægt var að hlusta á í fjarfundi. Formaður félags eldri borgara hér á svæðinu, Sigrún Camilla, var meðal frummælenda.


Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, í pontu á Fjórðungsþingi.


Gylfi Ólafsson, forseti bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og nýkjörinn formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða.


Dagný Finnbjörnsdóttir og Jóhann Birkir Helgason á Fjórðungsþinginu.

Fjórðungsþing Vestfirðinga fór fram í lok vikunnar í Bjarnarfirði á Ströndum. Þar voru að sjálfsögðu rædd fjórðungsgagn og -nauðsynjar. Gaman að sækja Kaldrananeshrepp heim. Við skoðum seiðaeldisstöðina á Ásmundarnesi í Bjarnarfirði en þar er verið að áframala regnbogasilungshrogn sem fara í sjó hér fyrir norðan. Fjórðungsþing var reyndar að mestu helgað vinnu að svæðisskipulagi og var gaman að taka þátt í því. Ný stjórn var kjörin og Ísafjarðarbær á tvo fulltrúa í henni; Gylfa Ólafsson sem er nýr formaður stjórnar og Dagný Finnbjörnsdóttir. Þeirra bíða mikilvæg verkefni ásamt öðrum stjórnarmönnum og starfsfólki að fylgja eftir þeim fjölmörgum ályktum sem voru samþykktar á þinginu.