Vika 41: Dagbók bæjarstjóra 2024
Dagbók bæjarstjóra dagana 7.-13. október 2024.
Annasöm vika að baki sem ég varði að stórum hluta í höfuðborginni.
Sem endranær byrjaði vikan á góðum fundi í bæjarráði. Þar voru aðallega fjárhagsleg málefni til umræðu. Ný útkomuspá var kynnt og erum við sérstaklega ánægð með niðurstöðuna sem er ívið betri en við gerðum ráð fyrir, þökk sé miklu tekjustreymi til hafnarinnar. Nú er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 679,8 milljónir króna í árslok 2024, og A-hlutinn skili 102 m.kr. Þetta getur samt sem áður breyst og það er atriði sem geta komið til lækkunar á næstum vikum, t.a.m. eins og hækkað framlag til leikskólans Eyrarskjóls vegna samanburðar á einingaverðum milli Sólborgar og Eyrarskjóls.
Álagningarhlutfall fasteignagjalda 2025 var til umræðu og leggur bæjarráð til lækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði í 0,52% en það var 0,54% á þessu ári, og 0,56% árið 2023. Skattur á atvinnuhúsnæði og opinberar byggingar verður óbreyttur, og lóðarleiga verður einnig óbreytt.
Á dagskrá var líka bréf til fjármálaráherra um afnám tollfrelsis hringsiglinga skemmtiferðaskipa, sem er fyrirhugað frá 1. janúar 2025. Þessi breyting mun hafa afleiðingar fyrir Ísafjarðarhöfn og aðrar hafnir á landsbyggðinni með fækkun skemmtiferðaskipa með minni tekjum fyrir hafnarsjóði og þjónustuaðila.
Ráðstefnan Lagarlíf var haldin í Reykjavík en það er mjög stór ráðstefna um allt sem tengist fiskeldi. Ég tók þátt í málstofu um samfélagsleg áhrif og ábyrgð fiskeldis, og sagði frá okkar reynslu hér fyrir vestan.
Nanný Arna Guðmundsdóttir og Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, á ársfundi Jöfnunarsjóðs.
Ég sat ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem var að mestu leyti hefðbundin nema að það fór talsverður tími fór í að ræða málefni Grindavíkur en þar var kynnt sú ákvörðun innviðaráðherra að ráðstafa 600 m.kr. úr jöfnunarsjóði til Grindavíkur.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambands íslenskra sveitarfélaga, í pontu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2024.
Fjármálarástefna sveitarfélaga fór fram í vikunni með fjölmörgum erindum sem sniðin eru til gagns fyrir sveitarstjórnarfólk. Ég tók þátt í pallborði um tækifæri og framtíð sveitarfélaga og var fókusinn á stafrænan heim og lausnir og hvernig sveitarfélögin eru að þróast.
Svo er gaman að segja frá þessu:
Tiltekt við Grænagarðsbryggju. Á undanförnum árum hefur safnast upp dót og rusl á gömlu Grænagarðsbryggjunni sem er einnig ónýt. En nú er mikil tiltekt í gangi og búið að taka bryggjuna. Það hefur verið leiðinlegt að sjá draslið þarna og þá sérstaklega þar sem þetta er aðkoman í bæinn.
Það hefur líka verið heilmikil tiltekt á Suðurtanga og nú vantar bara herslumuninn upp á að klára það verkefni. Nýja skipulagið á Suðurtanga er á lokametrunum og við erum í startholunum að fara að úthluta lóðum.
Drög að skipulagi móttökusvæðis fyrir farþega skemmtiferðaskipa á Sundabakka.
Verið er að hanna nýtt móttökuhús fyrir skemmtiferðaskip og gönguleiðir á Sundabakka sem á eftir að verða mjög flott.