Vika 41: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 9.-15. október.
Vikan byrjaði í bæjarráði en þar voru fjármálin fyrirferðamikil. Þar fór hæst útkomuspáin fyrir árið 2023 en það stefnir í að við lokum árinu með miklum sóma, og töluvert betur en við gerðum ráð fyrir. Niðurstaðan útkomuspár er að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verður jákvæð um 311,8 m.kr í árslok 2023. A hluti verður jákvæður um 62,5 m.kr. Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir 2023 gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta upp á 206 m.kr. og jákvæðri niðurstöðu A-hluta upp á 33,9 m.kr. Við erum hoppandi glöð með árangurinn, eins og gefur að skilja.
Líkamsræktarmálin voru einnig til umræðu í bæjarráði. Það barst eitt tilboð í rekstur líkamsræktar en það kom frá Ísófit sem er núverandi rekstraraðili. Málið gengur nú til bæjarstjórnar til samþykktar.
Ég átti mánaðarlegan fund með Hrönn verkefnisstjóra á Flateyri og Bryndísi bæjarritara. Þar fórum við yfir það helsta sem er í gangi. Hrönn hefur farið fremst í flokki við að hvetja fólk til að hreinsa Flateyraroddann sem um munar.
Það bárust góðar fréttir í vikunni að Ísafjarðarbær, Bolungarvík, Vesturbyggð og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fengu boð um að taka þátt í þróunarverkefni Gott að eldast sem gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.
Á fimmtudaginn var alþjóðalega kvikmyndahátíðin PIFF sett, en þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin. Dagskráin í ár var mjög metnaðarfull. Sýndar voru 47 myndir frá 21 landi, og dreifði hátíðin sér yfir þrjú sveitarfélög. Það er fullt tilefni til að hrósa aðstandendum PIFF fyrir að gera svona flottan viðburð og þeirra framtak til að gera bæinn okkar enn skemmtilegri!
Það var íbúafundur á Suðureyri í vikunni. Þar var kosin ný stjórn hverfisráðsins og voru talsverðar mannabreytingar í stjórninni. Sædís Ólöf lét af störfum sem formaður og vil ég þakka henni fyrir samstarfið. Hún hefur verið vakin og sofin yfir málum sem tengjast Suðureyri og öflugur talsmaður. Nýr formaður er Ólöf Birna og hlakka ég til samstarfsins. Það bar ýmislegt á góma, til að mynda umferðaröryggismál, almenningssamgöngur og báturinn á sumarróló.
Ég fékk boð um heimsækja nemendur á starfsbraut MÍ, en þau eru í áfanga um réttindamál. Það var fróðlegt að heyra hvað brennur á þeim. Félagsmiðstöð ungs fólks, bakslagið í hinsegin baráttunni og fleira.
Á dagskrá vikunnar var líka stjórnarfundur í Lánasjóði sveitarfélaga.
Vikuna kláraði ég með því að bruna á Akureyri á flokkstjórnarfund Samfylkingarinnar sem gekk svona glimrandi vel. Með mér í för var Jóhanna Ösp sveitarstjórnarkona í Reykhólahreppi og formaður stjórnar Fjórðungssambandsins en hún var með erindi á fundinum um samgöngu- og atvinnumál í kjördæminu. Það voru líka erindi frá Norðurlandi og Austurlandi. Þetta er upptaktur í málefnastarf Samfylkingarinnar sem er framundan um atvinnu- og samgöngumál. Ég fæ að halda utan um það verkefni ásamt einvalaliði, en með mér í stýrihópnum eru þau Kristján Þórður Snæbjarnarson, Margrét Kristmannsdóttir og Stefán Þór Eysteinsson. Einn af hápunktum fundarins var auðvitað ræða Kristrúnar okkar frábæra formanns sem féll í afar góðan jarðveg. Þvílík orka á einum fundi. Það er líka bara svo gaman að hitta félaga sína víðsvegar af landinu.