Vika 36: Dagbók bæjarstjóra
Dagbók bæjarstjóra í viku 36, 5.-11. september 2022
Kæru bæjarbúar!
Eitt af því hefur verið á planinu hjá mér er að gefa bæjarbúum innsýn í starf mitt sem bæjarstjóri með vikulegum pistlum. Þetta er sá fyrsti og ef vel tekst til þá reyni ég að halda mér við efnið.
Vikan hófst með 1209. fundi bæjarráðs þar sem rædd voru og afgreidd fjölbreytt mál að venju. Má þar helst nefna að við tókum fyrir bréf frá aðstoðarleikskólastjóra Eyrarskjóls þar sem óskað var eftir að Ísafjarðarbær myndi fjarlægja trjákurl sem notað er sem fallvörn á leikskólanum. Það kom upp atvik þar sem barn setti trjákurl upp í sig og það festist í hálsi barnsins. Mikil mildi var að ekki fór verr og barnið hlaut engan skaða af. Lóðin á Eyrarskjóli var öll tekin í gegn í fyrra og var tekin út af þar til bærum aðila, þar sem engar athugasemdir voru gerðar. Þess má geta að trjákurl er mjög algengt á leikskólum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, og er ekki ólöglegt eins og einhverjir fjölmiðlar greindu frá í vikunni. Málið er í vinnslu og er verið að skoða hvort eigi að taka það af á ungbarnasvæðinu.
Húsnæði GÍ sem var tekið í gegn eftir að mygla kom upp í vor
Ég heimsótti Grunnskólann á Ísafirði með Hafdísi, sviðstjóra skóla og tómstundasviðs. Við áttum fund með Kristjáni Arnari, nýjum skólastjóra, og Helgu aðstoðarskólastjóra auk þess að heilsa upp á annað starfsfólk. Í skólanum hafa verið miklar framkvæmdir til að takast að við mygluvandann sem kom upp í vor. Það er alveg ótrúlegt að tekist hafi að lagfæra skólann á svona stuttum tíma og verktakarnir eiga mikið hrós skilið fyrir vikið. Nemendum hefur fjölgað í GÍ undanfarin ár og er svo komið að við þurfum að fara að hugsa næstu skref í húsnæðismálum auk þess sem þörf er á að laga skólalóðina.
Á þriðjudögum er fastur fundur hjá sviðstjórum bæjarins, mannauðsstjóra, fjármálastjóra og upplýsingafulltrúa. Þar stillum við saman strengi, förum yfir helstu verkefnin fram undan og setjum í ferli. Við eyddum mestum tíma að þessu sinni í að ræða fjármálin, en við erum að takast á við erfiða fjárhagsstöðu auk þess verðbólgan er ekki að vinna með okkur. Aukið útsvar, minni launakostnaður og auknar tekjur eru góðu fréttirnar.
Miklar breytingar eru að verða á barnaverndarþjónustu en þann 1. janúar nk. munu ný lög um farsæld barna taka gildi. Nýju lögin fela m.a. í sér að hefðbundnar barnaverndarnefndir verða lagðar niður og við þurfum að leita samstarfs við önnur sveitarfélög um þjónustuna, auk þess að flóknustu málin þurfa að fara fyrir sérstök umdæmisráð. Það liggur fyrir að þrjú umdæmisráð verða starfandi á landinu öllu; eitt í Reykjavík, annað í Kraganum og svo það þriðja sem sveitarfélögin á landsbyggðinni ætla að stofna saman.
Mikið bras hefur verið á vatnsmálum á Suðureyri. Kristján Andri bæjarverkstjóri hefur verið duglegur að upplýsa mig, og ekki síst fólk og fyrirtæki á Suðureyri, um stöðu mála. Súgfirðingar eru orðnir langþreyttir á þessu ástandi, sem er skiljanlegt. Nú síðustu daga hefur allt kapp verið lagt á að tengja nýju vatnslögnina og vonandi verður hún komin í gagnið snemma í vikunni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, með hluta fundargesta fyrir framan Edinborgarhúsið á Ísafirði
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom til Ísafjarðar á fimmtudaginn (held í þriðja skiptið á tveimur vikum) og hélt fund um stöðu mannréttinda. Það var virkilega áhugavert að taka þátt á fundinum og gaman að sjá hversu margir menntaskólanemar mættu og tóku virkan þátt í umræðum.
Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar ásamt Bryndísi bæjarritara fóru svo til Patreksfjarðar á fimmtudaginn til að taka þátt í Fjórðungsþingi Vestfirðinga. Á þessum þingum eru helstu hagsmunamál fjórðungsins rædd og það var engin undantekning á þessu þingi. Fjölmörg mál voru lögð fram og fyrirferðamestu málin sneru að því að bæta samkeppnisstöðu Vestfjarða; samgöngur, fjarskipti og orka, auk þess að sveitarfélögin fái að njóta auðlindagjaldanna af fiskeldinu. Samþykkt var að skora á umhverfis-, orku- og loftslagsáðherra að hefja aftur vinnu við þjóðgarð í samráði við sveitarfélögin á Vestfjörðum, skorað á háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leggja sitt að mörkum til að auka aðgengi að fjarnámi svo fátt eitt sé nefnt. Það var gott að finna mikinn samhljóm og jákvæðni meðal þingfulltrúa. Við kusum okkur nýja forystu og Jóhanna Ösp úr Reykhólahreppi var endurkjörin formaður stjórnar Fjórðungssambandsins. Hún er með öflugt lið með sér og má þar nefna okkar fólk frá Ísafjarðarbæ Nanný Örnu og Aðalstein Egil, auk þess sem Lilja oddviti Tálknafjarðarhrepps og Magnús Ingi forseti bæjarstjórnar í Bolungarvík sitja einnig í stjórninni.
Nýja pumpuhjólabrautin vakti mikla lukku
Vestri hjólreiðar opnaði pumpuhjólabraut við Grænagarð á Ísafirði í dag, sunnudag. Það hefur verið magnað að horfa á hvað þetta hefur gerst hratt og hafa sjálfboðaliðar unnið sleitulaust undanfarnar vikur við að láta þetta verða að veruleika. Fullt af börnum, foreldrar, afar og ömmur mættu þegar brautin var formlega opnuð í blíðskaparveðri. Krakkarnir voru ekki lengi að ná tökum á þessu og pumpuðu eins og enginn væri morgundagurinn. Risastórt hrós á Vestra hjólreiðar.