Vika 35: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 28. ágúst-2. september.
Dagbókin hefur verið í góðu leyfi í sumar en það þýðir nú samt ekki að það sé einhver ládeyða í gangi. Það er allt búið að vera á fullu í sumar, sama hvar á er litið.
Mikið hefur verið um framkvæmdir í sveitarfélaginu í sumar, bæði af hálfu sveitarfélagisins og ekki síður einkaaðila. Þrótturinn í atvinnulífinu hefur verið mjög áþreifanlegur og hápunkturinn er auðvitað salan á Kerecis. Nóg hefur verið að gera í öðrum atvinnugreinum líka en tilkynning um lokun starfstöðvar Skagans 3X setti skugga á sumargleðina.
Krían kom og fór.
Við sjáum fyrir endann á framkvæmdum við Sundabakka á Ísafirði og á sama tíma erum við að taka á móti metfjölda skemmtiferðaskipa. Þetta er hefur að mestu leyti gengið vel þrátt fyrir mikið álag á hafnarstarfsmenn, ferðaþjónustuaðila auk þess sem íbúar hafa fundið fyrir þessari fjölgun, sérstaklega á stórum skipadögum. Við þurfum að ná betur utan um þetta stóra verkefni með stefnumótun, stýringu og innviðauppbygginu. Það er verið að vinna nýtt deiliskipulag fyrir Surðurtanga sem rammar inn þá uppbyggingu sem er framundan. Gert er ráð fyrir að þessi vinna verði opinberuð síðar í september og þá tekur við hefðbundið ferli athugasemda og kynninga. Bundar eru vonir við að nýtt skipulag taki gildi um áramót.
Síðustu vikurnar hefur Malbikunarstöð Norðurlands verið á fullu að malbika. Það sem malbik getur glatt hjartað. Nú er ekki lengur hægt að gróðursetja blóm í stóru holunni í Sjárvargötuninni á Þingeyri. Fjarðarstrætið á Ísafirði verður svo malbikað næstu daga.
Vikan hjá mér hefur boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Ég hlustaði á tvær ráðstefnur á netinu, annars vegar Húsnæðisþing sem innviðráðuneytið og HMS héldu og hins vegar kynningu á nýju Evrópuverkefni sem Vestfjarðastofa tekur þátt í um orkuskipti í sveitarfélögum.
Bæjarráð fundaði í vikunni og voru skipulagsmálin mjög fyrirferðarmikil á fundinum. Samþykkt var til að mynda að heimila deiliskipulag í landi Þórustaða fyrir baðstað sem hefur fengið nafnið Hvítisandur.
Bæjarráði barst bréf frá íbúum í Hnífsdal vegna sölu Bakkaskjóls þar sem undirritaðir lýsa yfir áhyggjum að iðnaðarstarfsemi verði í húsinu. Bréfinu var vitaskuld svarað.
Birta og Gunnar, fyrrverandi og núverandi Blábankastjórar, við lyklaskiptin.
Það voru bankastjóraskipti í Blábankanum í vikunni. Gunnar Ólafsson tekur við sem Blábankastjóri en hann hefur undanfarin ár tekið virkan þátt í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi á Vestfjörðum. Birta fráfarandi blábankastjóri heldur á vit nýrra ævintýra en hún er búin að lofa að vera dugleg að heimsækja okkur.
Ég átti fund með Bláma og Orkubúi Vestfjarða um fjölgun rafhleðslustöðva á Suðurtanga, en OV hefur verið ötult að koma upp nýjum stöðvum. Framundan er að setja stöðvar á Suðureyri og Flateyri.
Ísafjarðarbær ásamt Bolungarvík og Súðavík hafa komið að rekstri Fab lab smiðjunnar í samstarfið við MÍ. Við funduðum með forsvarsmönnum skólans um áframhaldandi samstarf.
Frá útgáfuhófi Sögu Hnífsdals.
Saga Hnífsdals eftir Kristján Pálsson kom út í vikunni. Útgáfuhófið var haldið í félagsheimilinu í Hnífsdal. Gaman að sjá hversu margir Hnífsdælingar voru mættir til að fagna útgáfunni með höfundi. Ekki skemmdu veitingarnar frá Kvenfélaginu Hvöt fyrir. Bókin er hin veglegasta. Ég er búin að vera með hana á borðinu hjá mér og er að stelast til að lesa einn og einn kafla. Efnistök bókarinnar eru mjög fjölbreytt og það er alveg magnað í raun hvað þetta litla þorp á sér ríkulega sögu. Kristján á sérstakir þakkir skilið fyrir þessa miklu vinnu sem við hin fáum að njóta.
Annars eru haustverkin farin af stað. Stærsta verkefnið er gerð fjárhagsáætlunar og er undirbúningur þegar hafin.
Sigríður Júlía, forseti bæjarstjórnar, í smalamennsku fyrir nokkrum árum.
Ég fékk líka úthlutað öðru haustverkefni. Félögum mínum í bæjarstjórninni fannst mjög gaman að útnefna mig sem leitarstjóra á svæði 3, í Mýrarhreppi hinum forna! Þannig að nú þarf ég að finna áhugasama smala eða blikka björgunarsveitina til að hjálpa mér með þetta verkefni. Ég hef oft smalað en hef þá verið í hlutverki að taka við skipunum. Þetta er fer beint á ferilskrá mína – Fjallkóngur!