Vika 23: Dagbók bæjarstjóra
Dagbók bæjarstjóra dagana 5.-11. júní 2023.
Nú er rúmt ár liðið frá því ég hóf störf sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Þessi tími hefur liðið mjög hratt, verið gefandi og krefjandi í senn. Það er gaman að fá að taka þátt í uppbyggingunni og það er allt í gangi alls staðar. Það eru líka forréttindi að vinna með góðu fólki, bæði í póltíkinni og stjórnsýslunni, það gerir starfið mitt auðveldara.
Bestu fréttir vikunnar bárust á laugardag þegar verkfalli BSRB var aflýst eftir að samningar við SÍS náðust nokkuð óvænt.
Skemmtiferðaskipin Sky Princess og Ambition við Sundabakka.
Ferðamannasumarið er hafið með krafti. Stærsta helgin (eftir því sem ég kemst næst) í komu skemmtiferðaskipa er liðin án stóráfalla. Alls komu tíu skip frá föstudegi fram á sunnudag. Sunnan(sand)stormurinn gerði fólki og fyrirtækjum lífið leitt, og virtist sem vökvunin á sandi hefði lítið að segja í þessu veðri. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá eitt skemmtiferðaskipið, Viking Neptune leggjast að nýja kantinum. Það vantar aðeins herslumunin að klára dýpkunina svo stærstu skipin geti lagst að en eftir fund okkar Hilmars hafnarstjóra og Vegagerðarinnar í vikunni er ráðgert að klára mánaðarmótin júní/júlí, en dýpkunarskipið er væntanlegt næstu daga.
Unnið að endurbótum á blokk við Sætún á Suðureyri.
Við Bryndís bæjarritari vorum með vinnudag á Suðureyri í vikunni. Það er mikið í gangi á Suðureyri í formi uppbyggingar. Við hittum frumkvöðulinn Elías Guðmundsson sem ber mikla ábyrgð í jákvæðum skilningi á mörgum framkvæmdunum sem er í gangi. Við áttum góða stund í Sunnuhlíð á milli vísiteringa þar sem Rósa Linnet ræður ríkjum en þar sinnir hún félagsstarfi aldraðra.
Við Hafdís sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs áttum fund með nýkjörinni stjórn Héraðssambands Vestfirðinga (HSV) til að undirbúa nýja samning en núverandi samningur rennur út um áramótin.
Bæjarráð fundaði venju samkvæmt í upphafi vikunnar. Þar voru á dagskrá þó nokkur áhugaverð mál. Bæjarráð samþykkti meðal annars að fara í verðfyrirspurn vegna viðhaldsframkvæmda við Grunnskólann á Suðureyri, en þar kom upp mygla í vetur. Nú er bara að vona að við fáum gott verð í verkið og verktaka svo skólastarf geti hafist þar í haust með eðlilegum hætti.
Teikning af listaverkinu Lendingarstaður fyrir geimverur.
Elísabet Gunnarsdóttir fyrir hönd ArtsIceland vil gefa Ísafjarðarbæ listverkið Lendingarstaður fyrir geimskip sem á að setja upp á Seljalandsdal. Þetta er mjög áhugavert verkefni og ég er nokkuð viss um að það eigi eftir að draga marga ferðamenn og íbúa upp á dal til að bera það augum. Um er að ræða sex metra hátt verk og staðsetningin með Ísafjörð í baksýn á eftir að koma vel út.
Krían í Tunguhverfi var líka á dagkrá bæjarráðs, en okkur barst bréf frá Náttúrufræðistofu Vestfjarða og Náttúrufræðistofnun sem hafa áhyggjur af fuglafælunni í hverfinu. Krían virðist lifa nokkuð góðu lífi í Tunguhverfi þrátt fyrir fæluna, en ég er ekki frá því að hún hafi aðeins dreift sér betur. Ég veit ekki alveg með árangurinn af þessu tilraunaverkefni. Ég hef heyrt að það séu almennt færri kríur í ár en undanfarin en ég veit ekki hversu vísindaleg sú skoðun er.
Fyrir nokkru fékk ég tölvupóst frá Diego Ragnari fyrir hönd Hinsegin Vestfjarða sem óskaði eftir leyfi að fá að laga regnbogann á Silfurtorgi, sem var auðsótt mál. Um helgina er fríður flokkur búinn að vera við störf að gera regnbogann aftur fallegan og flottan. Þetta kemur svo vel út. Takk Hinsegin Vestfirðir – þið eruð frábær!