Vika 22: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 29. maí–4. júní
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. Það er búið að vera fjölbreytt dagskrá um helgina um alla Vestfirði í tilefni dagsins.
Síðustu vikurnar og ekki síst þessa daganna hefur kjaradeila BSRB og samningarnefndar Sambandsins átt hug minn og margra annarra. Ef ekki tekst að semja í kvöld þá hefjast verkföll hjá okkur í Ísafjarðarbæ á morgun, en ég vona svo innilega að það takist að semja í kvöld. Við höfum verið að undirbúa okkur eins og hægt er en það eru þó nokkrir starfsmenn Ísafjarðarbæjar í BSRB sem verður sárt saknað ef ekki tekst að semja.
Vikan bauð upp á fundi í bæjarráði og bæjarstjórn, þar voru ýmis mál voru á dagskrá.
Við skipuðum í starfshóp um svæðisskipulag fyrir Vestfirði, en þau Sigríður Júlía og Kristján Þór verða fulltrúar Ísafjarðarbæjar.
Bæjarstjórn skipaði leitarstjóra á svæði 3 í Mýrarhreppi hinum forna, frá Fjallaskaga að Alviðru. Skemmst er frá því að segja að það eru margir húmoristar í bæjarstjórninni sem fannst það upplagt að skipa bæjarstjórann í það verkefni sem skoraðist ekki undan. Það er nokkuð ljóst að bæjarfulltrúar verða skipaðir í leitarhóp og áhugasömum íbúum verður að sjálfsögðu boðið að taka þátt í leitum á svæði 3 í haust.
Síðari umræða um ársreikning Ísafjarðarbæjar fór fram og var svo samþykktur af bæjarstjórn.
Á dagskrá bæjarstjórnar voru tvö mál tengd aðalskipulagi. Annars vegar var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna ofanflóðavarna á Flateyri. Þá er ekkert annað að vanbúnaði að hefja framkvæmdir (vonandi strax í sumar). Hins vegar var samþykkt öllu umdeildara mál er snýr að því að leyfa landfyllingu við Fjarðarstræti á Ísafirði. Ég var eilítið efins um þetta í upphafi en mér finnst tillagan hafa þroskast vel í umræðunni og hún hefur verið löguð að athugasemdum íbúa. Í gögnum málsins var tekið sérstaklega á framtíð fjörunnar og útivistar á svæðinu en í skipulagsbreytingunni er gert ráð fyrir grænu svæði og göngustíg meðfram sjónum, líkt og í gildandi aðalskipulagi. Þá er gert ráð fyrir útivistarfjöru á vestari hluta fyllingarinnar. Það kemur líka fram að vinna megi gegn neikvæðu þáttum sem fylgja því að núverandi fjara hverfi með því að dæla sandi utan á væntanlegan grjótgarð og mynda með þeim hætti nýja fjöru eða a.m.k. flýta fyrir myndun nýrrar fjöru. Þetta er hluti af framtíðarplaninu að fjölga íbúðalóðum en gera má ráð fyrir að langt sé í land að byggt verði á mögulegri landfyllingu þar sem það eru aðrir þéttingareitir sem eru mun nærtækari sem verða kynntir í nýju miðbæjarskipulagi sem er í vinnslu.
Breyting frá 2022, sérbýli | Breyting frá 2022, fjölbýli | Meðal fasteignamat á m2 fyrir sérbýli | Meðal fasteignamat á m2 fyrir fjölbýli | |
Flateyri | 31,50% | 12,90% | 112.000 kr. | 84.000 kr. |
Hnífsdalur | 31,70% | 12,80% | 156.000 kr. | 134.000 kr. |
Ísafjörður: Eldri byggð | 23,70% | 12,10% | 259.000 kr. | 294.000 kr. |
Ísafjörður: Nýrri byggð | 25,50% | 15,00% | 287.000 kr. | 230.000 kr. |
Suðureyri | 36,30% | 11,50% | 116.000 kr. | 93.000 kr. |
Þingeyri | 16,20% | 11,50% | 105.000 kr. | 90.000 kr. |
Nýtt fasteignamat fyrir árið 2024 var kynnt í vikunni. Talsverð hækkun var í Ísafjarðarbæ eins og síðustu ár sem endurspeglar uppgang og bjartsýni sem einkennir vestfirsk samfélög. Þetta eru auðvitað góðar fréttir þó að mörgum íbúum ói væntanlega við hækkandi fasteignagjöldum, en það er bæjarfulltrúa að taka afstöðu til þess í fjárhagsáætlunargerðinni í haust hvað gera skal við þessa hækkun.
Aðalfundur BsVest var haldinn í vikunni. Þar gerðist lítið markvert. Ásreikningurinn samþykktur og ákveðið að halda annan fund í haust.
Við Axel og Bryndís sviðsstjórar bæjarins áttum samráðsfund með Sædísi formanni hverfisráðsins á Suðureyri. Sædís fylgdi eftir fundargerð hverfisráðsins, og þá sérstaklega varðandi Túngötu og hugmyndir að gera hana að vistgötu og svo var rætt um sumarróló, en þar þarf að taka til hendinni og fjarlægja ónýt leiktæki sem stafar hætta af og laga önnur.