Vika 21: Dagbók bæjarstjóra 2023
Dagbók bæjarstjóra dagana 22.-28. maí 2023.
Nú þegar sumarið er að bresta á og allt er farið að grænka þá er tilefni fyrir íbúa og fyrirtæki að líta í kringum sig og gera fínt, þetta á auðvitað líka við Ísafjarðarbæ. Ég hef fengið nokkrar ábendingar í vikunni þar sem bent er á rusl á víðavangi og út um allan bæ, sem á vitanlega heima í Funa. Íbúar og fyrirtæki á Þingeyri tóku sig til á síðustu helgi og gerðu fínt. Það er alveg til fyrirmyndar.
Bæjarráð fundaði sem fyrr í byrjun vikunnar. Þar ræddum við ítarlega ársfjórðungsuppgjör sem er lakara en við gerðum ráð fyrir. Það má rekja að mestu til til þess að tekjur frá Byggðasamlagi málefna fatlaðra á Vestfjörðum hafa ekki skilað sér enn og verðbólgan er farin að hafa neikvæð áhrif á okkur. Mikilvægasta verkefni bæjarráðs er að fylgjast með rekstrinum og þegar svona upplýsingar berast þarf að leggjast vel yfir þær.
Við fengum fínasta tilboð í malbikun og bæjarráð tók tilboð frá Malbikunarstöð Norðurlands. Svo fóru út tvö tilboð í lok vikunnar. Annars vegar var það gatnagerð í Tunguhverfi; Bræðratunga og Engjatunga, fylling, vatnslagnir og holræsalagnir og hins vegar var óskað eftir tilboðum í að fjarlægja gervigras af æfingarvelli á Torfnesi og jafna undirlag undir nýtt gervigras.
Hrönn Garðarsdóttir, nýr verkefnastjóri á Flateyri, og Hjörleifur Finnsson, fráfarandi verkefnastjóri.
Eftir bæjarráð rukum við Bryndís bæjarritari yfir á Flateyri í kveðjukaffi í Skúrinni þar sem við kvöddum Hjörleif Finnsson verkefnisstjóra. Ég þakka honum kærlega fyrir samstarfið og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Um borð í Sky Princess.
Okkur Hilmari hafnarstjóra var boðið í heimsókn í Sky Princess sem lá út á akkerum í vikunni. Tilefnið var að kynna okkur þau umhverfisverkefni sem væru í gangi um borð. Þetta var áhugaverð heimsókn og Marco skipstjóri tók sérstaklega vel á móti okkur ásamt áhöfninni. Umboðsmaður skipsins var líka um borð og nefndi það sérstaklega að það vantaði meiri afþreyingu í landi (sem er reyndar mjög góð leið til að minnka mannhafið á götunum) og lengri opnunartímar þjónustu. Ef við ætlum að taka móti skemmtiferðaskipum þá þurfa innviðirnir okkar að vera í lagi.
Við Hilmar tókum líka fund með starfsmönnum á vakt á slökkvistöðinni til að ræða hvernig við myndum bregðast við ef eitthvað kæmi upp á þegar skemmtiferðaskip eru í landi með fjölda gesta, eins og t.d. slys. Það er alveg ljóst að allur þessi fjöldi af gestum veldur auknu álagi á viðbragðsaðila. Skemmst frá því að segja að slökkviliðið er með allt á hreinu og eru viðbúnir eins og hægt er. Einnig ræddum við nýja slökkvistöð sem er auðvitað tímabær og er komin á dagskrá en mætti koma fyrr en gert er ráð fyrir. Það er bæjarstjórnar að taka ákvörðun um það.
Jarðhitabor Orkubús Vestfjarða í Tungudal.
Ársfundur Orkubús Vestfjarða var á dagskrá vikunnar. Áhugavert að heyra hvað er framundan hjá þeim og það nærtækasta er auðvitað leitin að jarðhita í Tungudal. Borinn er mættur í dalinn! Leitað verður á þremur stöðum og vonandi að leitin beri árangur. Talsvert var rætt um um möguleikann á virkjun í Vatnsdal.
Héraðsþing HSV var haldið í vikunni. Þar voru margir einstaklingar heiðraðir fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar ásamt því að ræða helstu málefni. Einnig var kjörin ný stjórn og ég hlakka til samstarfsins við þau. Ég notaði tækifærið og undirritaði uppbyggingarsamninga við íþróttafélögin.
Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells, sýnir fóðurpramma fyrirtækisins.
Ég skellti mér út á Djúp ásamt fulltrúm nágrannasveitarfélaganna og OV og skoðaði eldissvæðið hjá Háafelli og fóðurprammann Ögurnes (sem gengur fyrir rafmagni). Það var mjög fróðleg heimsókn þar sem framkvæmdastjórinn, Gauti Geirsson sagði okkur hvað væri gangi og hvað væri framundan. Það er ekki annað hægt að segja að það er spennandi tímar hjá fyrirtækinu og samfélaginu allt í kring.
Einnig var opin fundur hjá Samfylkingunni um heilbrigðismál en þau voru komin vestur þau Anna Sigrún sem leiðir málefnastarfið, Jóhann Páll þingmaður og Ólafur Kjaran aðstoðamaður Kristrúnar formanns. Þar var mikið rætt um mönnun heilbrigðisstofnana og önnur þau stóru úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir.
Guðbjörg Lind Jónsdóttir með Rannveigu Jónsdóttur, starfsmanni Listasafns Ísafjarðar.
Guðbjörg Lind (Hlíðavegspúki) opnaði einstaklega fallega sýningu í Listasafni Ísafjarðar í lok vikunnar. Sýningin heitir Uppáhelling fyrir sæfarendur. Hvet alla að kíkja á hana. Verkin höfðu ótrúlega róandi áhrif á mig (og þarf nú talsvert til). Hægt að horfa á þau endalaust.